<$BlogRSDURL$>

júlí 08, 2003

Ég fór í Egilsstaði í gær, en datt í hug að koma við í Sólskógum, gróðrarstöðinni þeirra Gísla og Kötu. Keypti mér nokkrar plöntur til að setja í beðið mitt. Það er nefnilega stefnan að það verði svo þéttur gróður í beðinu að illgresi eigi sér þar enga lífsvon. Þetta er víst óhemju bjartsýni, en hvað með það.

Þegar heim kom fór ég á stúfana að leita mér að gömlum skít til að setja í beðið. Þá rakst ég á umferðarfulltrúa Landsbjargar (eða eitthvað álíka) þar sem hann lá í leyni með hraðamæli og mældi hraða bíla sem keyrðu í gegnum skóginn. Það er 50 km hámarkshraði í gegnum staðinn en hann var að mæla bílana á upp í 100 km hraða. Stóru vörubílarnir sem keyra hér í gegn á leið sinni til og frá Kárahnjúkum, mældust á upp í 90 km hraða og meira að segja lögreglubíllinn sem keyrði í gegn var á 70 km hraða. Það verður að segjast vörubílsstjórunum til hróss að þeir létu greinilega vita í talstöðinni að verið væri að hraðamæla og eftir að fyrstu þrír bílarnir voru komnir í gegn, hægðu hinir bílstjórarnir á sér og vinkuðu brosandi. Það er líka kosturinn við að verða fyrir vörubíl að það eru meiri líkur á að maður bara steindrepist en verði ekki að örkumla grænmeti á stofnun það sem eftir er ævinnar.

Ég auglýsi hér með eftir mótvægisaðgerðum Landsvirkjunar, sem ætlaði að leysa þetta vandamál hér með lagningu göngu- og hjólreiðastíga. Við erum bara komin með umferðina - ekki gangbrautir og hjólreiðastíga.

Ég auglýsi eftir lögreglumönnum sem væru til í að taka nokkrar rispur í að mæla ökuhraða hérna í skóginum á næstu dögum. Ef veðrið verður sæmilegt á næstu vikum, fara a.m.k. 10.000 bílar í gegnum skóginn, u.þ.b. helmingur þeirra á ólöglegum hraða.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?