<$BlogRSDURL$>

júlí 27, 2003

Helgin, sem átti að vera rigning og fýla , kom á óvart. Ágætis veður - ekki alltaf sól og rigningarskúrir á nóttunni - en bara þægilegt.
Við grilluðum á föstudagskvöldið og Kristín vinkona mín og Guðmundur sonur hennar borðuðu með okkur. Meira að segja björninn minn mætti í desertinn - var sendur ofan af heiði að sækja eitthvað og ákvað að gista heima.

Í gær, laugardag, vorum við hjónin svo að vinna í garðhúsinu, klæddum eina hlið alveg og aðra að mestu leyti, settum á þakið að hluta til og náðum í meira efni. Frumburðurinn sá um matseld og þjónustu við okkur. Við notum ösp í klæðninguna, efni sem er ókantað og með berkinum á, þannig að það er töluverð vinna að hreinsa börkinn af. Verkfærin í það eru barkjárn (sem líkist hófjárni) og svo öxi. Ég er með blöðru í lófanum eftir öxina og ætla því að hvíla mig á þessu í dag. Bóndinn er að fara að veiða og ég ætla að fara í göngutúr upp í skóg á meðan. Ég nenni ekki að fara að veiða en ég er alveg til í að matreiða nýveiddan silung í kvölmatinn.

Ég skrapp með björninn minn inn á Grenisöldu áðan og sá þvílíkar breytingar er verið að gera á landslaginu þarna á heiðinni. Norðastafellið er að breytast í holu, því þar er látlaust sprengt grjót og malað í vegfyllingar, sneiðingarnir upp úr Fljótsdalnum skera hlíðina í ótal hlykkjum og sífellt kveða við sprengingar, bæði úr malarnáminu og úr Teigsbjarginu þar sem Ítalirnir eru að bora aðkomugöngin.

Sólin skín, farin út að njóta blíðunnar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?