<$BlogRSDURL$>

ágúst 02, 2003

Undir miðnættið í gær fór ég ásamt bóndanum og nágrannanum á veiðar. Markmiðið var að útrýma einu geitungabúi niðri í Atlavík og öðru af húsinu hjá Lárusi - nágranna okkar. Mitt hlutverk: "To drive the getaway car". Farið var af stað þegar komið var fram undir miðnætti en þegar við komum niður í vík, hittum við fyrir náunga sem starfaði áður sem meindýraeyðir. Hann tók völdin í sínar hendur, þóttist nú aldeilis kunna þetta en gekk ekki betur en svo að hópur árasargjarnra íbúa streymdi út og hann átti fótum fjör að launa. Þá tók bóndinn til sinna ráða, íklæddist skinnhönskum, flugnaneti og fór af stað með eldfæri og startspray og flamberaði heimkynni þessa ættflokks. Í morgun fórum við svo niðureftir til að fjarlægja leifarnar en þá var hópurinn sem slapp ekki neitt ánægður með það. Við frestuðum því aðgerðum til kvöldsins.
Eftir ævintýrin í víkinni var haldið heim og sest á rökstóla. Ekki var hægt að beita eldi, þar sem búið var innundir viðarklæðningu íbúðarhússins. Eftir nokkra umhugsun var farið með polyurethankvoðu og útgönguleiðinni lokað. Því næst var dælt ether og öðrum slævandi efnum inn í búið gegnum granna pípu. Þegar ekki heyrðist lengur suð í kúlunni, var allt draslið skafið utan af húsinu og sett í svartan ruslapoka og límt vandlega fyrir. Það sem hrundi til jarðar og hreyfðist ennþá var aflífað með öðrum ráðum.
Svona leit það út í dagsbirtunni í gær:

Að lokum var farið í kaffi og dálítið af koníaki, svona rétt til að fagna vel unnu verki.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?