<$BlogRSDURL$>

september 07, 2003

Ég fór út í skóg í gær og tíndi mér svolítið af hrútaberjum. Hrútaberjahlaup er alveg nauðsynlegt að eiga með góðum ostum og rauðvíni á dimmum vetrarkvöldum. Vandinn við að búa það til er að nota rétt magn af stilkum og hálfþroskuðum berjum til að saftin hlaupi almennilega án þess að það þurfi að bæta í hana hleypi. Hann skemmir bragðið en það er samt skárra en að eiga bara hrútaberja "labb".

Rifsberin eru flest komin í fuglana - veit samt um stað þar sem venjulega er hægt að finna smávegis. Annars verð ég kannski að gera eins og hópur ónefndra kvenna gerði einu sinni:

Þær fóru út að Húsó, þar sem eru einhverjir gjöfulustu runnar staðarins, að kvöldlagi. Tvær voru sendar inn til að halda húsráðendum uppi á snakki, hinar fóru með fötur og klippur í runnana og tíndu af öllum kröftum. Þetta gekk allt saman upp, heilmikið náðist af berjum, þær sem voru inni fengu kaffi og með því og hinar komust óséðar burt. Tvennt var þó sem eyðilagði ánægjuna yfir vel heppnuðu plotti:
  • Rifsberjahlaupið misheppnaðist, sennilega vegna kunnáttuleysis þjófanna við matargerð

  • Næst þegar ein úr hópnum kom í Húsó, sagði skólastýran að henni rynni til rifja að öll þessi ber hefðu eyðilagst, þar sem enginn hefði haft áhuga á að hirða þau.

  • This page is powered by Blogger. Isn't yours?