<$BlogRSDURL$>

október 13, 2003

Fór eftir vinnu í dag heim til föðurhúsanna, á Norðfjörð, sem sagt. Aðaltilgangurinn var að hitta foreldra mína, hjálpa pabba í tölvumálunum og fleira smálegt. Við vorum bara nokkuð ánægð með okkur um það leyti sem ég fór af stað heim aftur. Búin að ná gögnunum hans út úr gamla Makkanum, koma skikki á netfangaskrána og síðast en ekki síst, setja upp bloggsíðu Pabba. Svo er bara að sjá hvernig honum gengur að nota þetta tæki.

Ég lenti í þoku á Oddskarðinu í bakaleiðinni og satt best að segja, veit ég bara um einn vegarslóða sem ég vil síður keyra í þoku en Oddskarð og það eru Hvalnesskriðurnar. Mér datt í hug, þar sem ég lúsaðist milli stika á Skarðinu, atvik sem átti sér stað fyrir nálægt 20 árum. Við, þáverandi hjónaleysin, ásamt frumburðinum, ca. 4 ára patta, vorum einu sinni sem oftar á leið yfir Skarðið í þoku. Okkur hefur örugglega verið tíðrætt um þokuna, því við heyrðum í litla spekingnum okkar í aftursætinu:

" Þoka (smá hlé) þoka (smá hlé) .......(smáhlé) þoka (smá hlé) brotin þoka "

og þá áttuðum við okkur á því að barnið hélt að vegstikurnar hétu "þokur".

This page is powered by Blogger. Isn't yours?