<$BlogRSDURL$>

október 24, 2003

Í gær fór ég á Norðfjörð til að vera við jarðarför.

Ég var búin að segja foreldrum mínum að ég yrði komin kl. 1 og við ætluðum að verða samferða. Ég var að vinna fram til 12 - tafðist í korter vegna símtals og var því orðin svolítið stressuð. Dreif mig af stað og mundi þegar ég var komin vel áleiðis, að ég hafði gleymt að taka bensín. Lét slag standa og keyrði áfram á Reyðarfjörð og hökti á síðustu dropunum inn á Shell á Reyðarfirði. Stökk út við sjálfsafgreiðsludæluna og byrjaði að dæla á. Dælan reyndist biluð, og eftir nokkurra mínútna baráttu gafst ég upp, fór inn og borgaði þessa fáu lítra sem ég hafði náð, fékk að vita að einhver hafði keyrt frá dælunni með stútinn í tanknum og stúturinn var skemmdur.
Afgreiðslumaðurinn hafði sem sagt horft á mig bisa þetta án þess að finna hjá sér þörf til að koma út og segja mér að dæluhelv*** var í ólagi.
Klukkan var orðin korter í eitt og ég ekki komin nema á Reyðarfjörð. Ég keyrði eins og druslan dró - vonaði að löggan væri í mat - verði þeim að góðu. Rétt neðan við Oddskarðsgöngin lenti ég á eftir olíuflutningabíl með tengivagni. OK, keyri hvort eð er ekki hratt í gegnum göngin - en þegar olíubíllinn stoppaði í miðjum göngunum var mér nóg boðið. Skýringin var sú að olíubíllinn var of stór til að komast í útskotið og bílarnir tveir, sem á móti komu, urðu að bakka til baka í næsta útskot. Ég var komin til foreldra minna 10 mínútum áður en við áttum að vera komin út í kirkju og átti þá eftir að vippa mér í betri fötin. Vill til að ég nota yfirleitt ekki langan tíma í slíkt !

Tímaplanið var svo þannig að ég ætlaði að vera komin í Egilsstaði aftur klukkan 7 - því bóndinn var að koma með kvöldfluginu heim. Það gekk vel og ég var komin í Egilsstaði um hálf sjö, nógur tími til að skreppa í búð og svoleiðis. Hringir þá ekki bóndinn og segir mér að fluginu hafi seinkað og a.m.k. klukkutím þar til hann komi. Þá mundi ég eftir því að Gleðikvennafélag Vallahrepps var með fund á Café Nielsen og skellti mér þangað, þó svo ég hafi í fyrradag verið búin að afboða.
Það reddaði málunum, eftir klukkutíma var ég búin að borða ágætis mat, reka af mér slyðruorðið sem gleðikona ( NB!! sem samsvarandi orðinu gleðimaður) og komin út á völl að sækja bóndann.
Þegar heim kom, kíktum við í afmæli hjá litla kartöflubóndanum, 9 ára pjakk, sem er dyggur aðstoðarmaður okkar hjóna við kartöflurækt og ýmsar aðrar framkvæmdir.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?