<$BlogRSDURL$>

október 21, 2003

Skrítnir svona dagar - ég gat lítið sofið í nótt, sofnaði ekki fyrr en undir morgun - vaknaði svo við vekjaraklukku - mína eigin að ég hélt - klukkan sem sagt að verða 8. Stökk á fætur og sá að synir mínir voru ekki farnir að hreyfa sig og vakti þá. Þeir voru báðir frekar undrandi, því klukkan var ekki nema tæplega 7 og engin ástæða til að vera að flýta sér.

Ég var ónýt fram yfir hádegi, en eftir að hafa sofnað í 1-2 tíma var ég farin að hressast, sat með fartölvuna inni í rúmi og vann í gögnunum hans pabba. Dagurinn var ekki alveg ónýtur eftir allt saman.

Á fimmtudaginn þarf ég að fara til jarðarfarar. Það er svo einkennilegt hvernig sumt fólk fær miklu stærri skammt af áföllum í lífinu en aðrir. Dóttir konunnar - sem verið er að jarðsetja - er jafngömul mér. Hún var orðin ekkja með 3 börn þegar hún var 25 ára. Síðan er hún búin að missa föður sinn, bróður sinn, tengdaföður sinn (föður seinni manns síns) - alla á sviplegan hátt, í slysum eða bráðum veikindum - og núna er móðir hennar látin.

Bóndinn er í Kongsvinger í Noregi að skoða gróðrarstöð og læra eitthvað um meðhöndlun plantna - þeir eru svona þessir skógarmenn - eins og sjómenn sem fara í laxveiði þegar þeir eiga frí - nota fríið sitt í að skoða skóginn - eða þannig.
Strákarnir okkar segja þegar fjölskyldan hafi farið í sumarfrí innanlands hér áður fyrr, hafi þeir alltaf verið að fara í hina og þessa skóga og skoða hin og þessi tré. Nokkuð til í þessu - en það er bara svo gott að vera í skóginum - hvort sem er heima eða heiman.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?