nóvember 08, 2003
Ákvað þegar leið á daginn að skreppa í partý í sumarbústað sem búið var að bjóða okkur hjónunum í. Þar sem bóndinn situr veðurtepptur í Reykjavík, varð ég að sýna lit og mæta. Fjörugasta teiti, skemmtiatriði, söngur og mikið gaman. Ég drakk bara vatn, þorði ekki að smakka neitt sterkara ofan í lyfin. Fékk mér svo tvo kaffibolla rétt áður en ég fór heim um miðnættið og sit svo hér svoleiðis glaðvakandi. Bóndinn í borginni, frumburðurinn og björninn - báðir farnir að sofa - og ég bara alein í heiminum. Síðast man ég eftir svona ástandi á mér þegar ég einhvern tíma var í námstörn í Reykjavík - fyrir tveim eða þrem árum síðan - að vorlagi. Var þá í einhverju ofurstressi og gat ekki sofið. Settist upp í rúminu og krotaði þetta á einhvern snepil:
Vornótt í borginni
Í vornóttinni hljóðnar borgin,
dottar, rumskar af og til
við ónæði af stöku bíl,
skipi sem leggur að landi
eða óm af mannamáli.
Í vornóttinni fölna borgarljósin
sem í vetur réðu lögum og lofum.
Þau sjá ofjarl sinn, draga sig í hlé.
Lýsa ennþá af skyldurækni
einni saman.
Í vornóttinni virðist
svefninn hafa villst af leið.
Mér er ekkert að vanbúnaði,
vildi gjarnan fara að sofa
því til hvers að vaka
í vornóttinni , ein.
Núna dettur mér ekkert í hug.
Vornótt í borginni
Í vornóttinni hljóðnar borgin,
dottar, rumskar af og til
við ónæði af stöku bíl,
skipi sem leggur að landi
eða óm af mannamáli.
Í vornóttinni fölna borgarljósin
sem í vetur réðu lögum og lofum.
Þau sjá ofjarl sinn, draga sig í hlé.
Lýsa ennþá af skyldurækni
einni saman.
Í vornóttinni virðist
svefninn hafa villst af leið.
Mér er ekkert að vanbúnaði,
vildi gjarnan fara að sofa
því til hvers að vaka
í vornóttinni , ein.
Núna dettur mér ekkert í hug.