<$BlogRSDURL$>

nóvember 24, 2003

Nóvembermyrkur

Nóvembermyrkur, rigning.
Ég leita í huganum að ljósi,
minningu sem lýsir.
Í luktu hólfi hugans finn ég skímu.

Við hlaupum berfætt
meðfram læknum
með spriklandi lontu í lófanum.
Við sitjum í gilinu
og látum okkur dreyma.
Mínir draumar og þínir,
loftkastalar og skýjaborgir,
um framtíð sem við eigum í vændum.

Við sitjum sitt á hvorri berjaþúfunni
og keppumst við
að fylla bláu Royal-baukana
af safaríkum krækiberjum.
Alltaf ertu á undan mér,
alltaf eru berin þín
laus við lyng og strá.

Við hittumst á mildum haustdegi
langt frá bernskuslóð.
Það er glampi
í glettnum augum þínum.
Barnið þitt fæðist í vor.
Framtíð þín, bróðir,
er orðin að nútíð.
Draumarnir orðnir að alvöru.

Nóvember, myrkur,
ég man þennan dag
þegar mér barst þessi fregn,
líf þitt var að engu orðið,
allir þínir draumar flognir burt.

Í litlu hólfi í huga mér ertu enn
og lýsir upp myrkrið
á dimmu nóvemberkvöldi.


(Þ.H. 24.11.1993)


This page is powered by Blogger. Isn't yours?