<$BlogRSDURL$>

maí 09, 2003

Á morgun eru kosningar. Björninn minn, sem náði því takmarki að verða 18 ára í mars sl., er mikið að velta fyrir sé hvernig hann eigi að eyða atkvæðinu sínu. Ein hugmyndin var að taka með sér tening í kjörklefann, önnur að fara á kosningaskrifstofurnar og láta ráðast af móttökunum hver yrði fyrir valinu, kjósa Samfylkinguna til að gleðja afa sinn og svo mætti lengi telja. Hann hefur undanfarna daga fengið bréf, undirrituð af forkólfum framboðanna - þar sem honum er sagt hvers vegna hann eigi að kjósa þennan eða hinn. Í gærkvöldi þegar hann var orðinn svo leiður á efnafræðinni sem hann var að lesa, fór hann að glugga í póstinn sinn. Þá kom hjá honum:" PÞÖ !! " með mikilli fyrirlitningu. "Þessi Davíð Oddsson, hann lætur aðra skrifa bréfin fyrir sig, gerir bækling um það sem allir hinir ætla að gera "vitlaust" ef þeir komast til valda en segir ekki orð um hvað hann vill gera. Ég kýs EKKI þennan flokk ! "

Hann er ekki svo galinn strákurinn - eftir allt saman.

maí 08, 2003

Nú er verið að hugsa fyrir kosningavöku hjá okkur í skóginum - skólastjórahjónin eru búin að tilkynna opið hús - engin flottheitt, bara popp og svoleiðis. RIGHT, hver trúir því sem hefur komið til þeirra undir svipuðum kringumstæðum !!

Sissuvinafélagið er að hugsa um að kveikja upp í grilli og hafa sameiginlega kyrrðarstund annað hvort á nr. 14 eða 8a. Það er óþarfi að taka fram götuheitið því það er bara ein gata í skóginum ennþá. Sissuvinafélagið er mjög lokaður félagsskapur sem í eru tvær fjölskyldur + einn heiðursfélagi (Gissur Sissumaður) og svo er það Sissa sjálf.

Nú er verið að auglýsa lóðir í Hallormsstaðaskógi ! Lóðirnar númer 7, 11, 13 og 15 við götuna sem er til staðar nú þegar og svo fullt af lóðum við nýja götu sem kemur til með að heita Réttarkambur. Það er eitt vandamál við þessar lóðir og götur: Það er ekki hægt að skoða þær neitt af viti þar sem þær eru á kafi í skógi. Þegar við byggðum okkar hús rétt upp úr 1990 var það tveggja daga verk að fella trén á lóðinni svo hægt væri að byrja að byggja !!


maí 06, 2003

Ég er búin að vera löt að blogga núna undanfarið. Ástæða ? Þarf einhverja ástæðu til - kannski ekki.

Ég lenti um helgina í teiti hjá Verkstjórafélagi Austurlands, þar sem bóndinn er félagi. Þetta félag er virkara en mörg önnur að því leyti að árlega er haldinn aðalfundur, öllum boðið til kvöldverðar og makarnir fá alveg sérstaka meðferð. Ég hef stundum mætt í kvöldverðinn en fór í fyrsta skipti í makaprógrammið núna. Það var óvissuferð með Svenna. Við fórum út í Hróarstungu, skoðuðum gamla bæinn á Galtastöðum fram - sem er eitt best varðveitta torfhús sem ég hef séð, og líka eitt best varðveitta leyndarmál okkar Héraðsmanna. Það stendur bara þarna og getur ekki annað.
Næsta stopp var svo á Kirkjubæ - þar sem aftur á móti er dæmi um mjög vel heppnaða endurgerð á gömlu húsi.

Svo var haldið til kvöldverðar á Hótel Svartaskógi. Góður matur, lambakjöt, kryddað með blóðbergi, birki og fleiri jurtum úr umhverfinu - virkilega góður matur.

Þar var síðan gleði og glaumur fram eftir kvöldi.

Það var þungu fargi létt af birninum mínum, sem er búinn að sitja linnulaust yfir stærðfræðinni síðan á föstudag. Hann fékk vinnu í sumar og einmitt það sem var efst á óskalistanum. Vinna hjá Héraðsverki í alls kyns snatti, mælingum og skófluvinnu. Draumurinn er samt að fá að vinna á gröfum eða öðrum vinnuvélum. Vonandi gengur það upp hjá honum. Menn eru jú búnir að leggja á sig langt og mikið námskeið - og þá var ekki verið að skríða gegnum próf með 5,5 !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?