<$BlogRSDURL$>

maí 22, 2003

Ég var að hugsa um það á leiðinni í vinnuna áðan hvað nýir hlutir eru fljótir að verða hversdagslegir. Fyrir örfáum dögum sá ég tvo bíla á ferð með hús á pallinum. Ég sneri mér við til að horfa á þetta, frekar óvenjulegt að sjá svona flutning. Í morgun, á leið í vinnuna, á þessum 27 km spotta, mætti ég þremur húsum og fannst ekkert merkilegt við það. Í gluggunum voru meira að segja gluggatjöld. Miðað við öll þau hús sem verið er að flytja hér í gegn og upp á heiði, styttist í að á Fljótsdalsheiði rísi nokkur hundruð manna byggð.
Grenisalda, þar sem reistur var skáli um eða upp úr 1970, er löngu orðið fast kennileiti hjá mönnum. Núna er rekið þar mötuneyti fyrir verktaka sem vinna að uppbyggingu vegarins inn á heiðina. Einar í Mýnesi, sem var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi, fyrir ýmissa hluta sakir, bjó í þessum skála svo lengi að menn kölluð hann "Einar á öldunni". Nafnið á Grenisöldu skýrir sig sjálft, en gaman væri að vita hvenær það breyttist úr því að vera örnefni sem aðeins var til í samtölum milli manna í að vera skráð á kort og viðurkennt sem slíkt.
Björninn minn er að vinna þarna inn frá núna og ég heyri hann tala um örnefni sem eru að festast í máli manna - ekki öll jafn gáfuleg.

Dæmi: Norðausturfellið, Bessa og Búkolluhóll svo einhver séu nefnd.

Þetta eru svona "tímabundin örnefni". Stundum festast þau, stundum ekki. Eitt dæmi um slíkt er Bergsbeygja í Hallormsstaðaskógi. Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég heyrði vegagerðarmann tala um þessa beygju nýlega og notaði þetta orð. Ég veit nefnilega að sumarið 1983 þegar Finnur Karlsson, núverandi kennari við ME, stundaði vinnu á Hallormsstað, mætti hann á hverjum morgni Bergi nokkrum, sem þá var nýlega tekinn saman við stúlku sem bjó á Hallormsstað. Finnur tók upp á því að kalla beygjuna Bergsbeygju og var fyrst og fremst að stríða viðkomandi einstaklingum. Svona verða nú örnefni til - Bergur kvæntist stúlkunni - þau eignuðust börn og buru, en skildu síðan fyrir nokkrum árum. Örnefnið lifði lengur en hjónabandið.


maí 21, 2003

Það urðu heilmiklar mræður um grill hérna í vinnunni hjá mér í gær, eftir að uppskriftin að bjórdollukjúklingnum kom á blogginu hennar Nönnu. Við erum að plana sameiginlegt grill og þessi uppskrift kemur örugglega til álita.

Björninn minn var að fara í partý um síðustu helgi þar sem allir áttu að koma með eitthvað til að grilla og líka einhverja matartegund sem ekki hentaði á grillið. Hann fór með tvennt (fyrir utan kjötið), annars vegar íspinna - svona grænan hlunk, þið vitið og svo spaghetti. Hann sagði að ísinn hefði verið grillaður, settur inn í banana í staðinn fyrir súkkulaðið, en enginn hefði fundið neina aðferð til að grilla Spaghetti-lengjurnar.
Hugmyndirnar sem þessir pjakkar fá. Þetta voru þeir að skemmta sér við um síðustu helgi, í skítakulda úti í skógi að grilla eitthvað nógu fáránlegt.

maí 19, 2003

Ég verð alltaf jafn REIÐ þegar mig vantar skó og fer í bjartsýniskasti og held að það gangi bara si svona ! Nei, því miður, kvenskór eru bara til upp í 41, það kom eitt par í 42 og það fór strax. Þeir FARA alltaf strax.
Skyldu íslenskir skókaupmenn þjást af sömu meinlokunni og var viðloðandi vefnaðarvörudeildina í ónefndu kaupfélagi (og er kannski enn) ?? Það er þetta:

"Það þýðir ekkert að panta þetta, það selst strax upp !!"


Ég er með fætur í samræmi við líkamsstærð og get ekki skiilið hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að flytja til landsins skó í öllum stærðum !! Svo erfist þessi ófögnuður eins og annað og frumburður minn, sem er stór maður og notar skó númer 48-49 er í sömu klípunni. Þegar maður fer svo til útlanda, skoðar á netinu og allt það, þá er til hellingur af skóm í þessum stærðum, bara ekki hér á landi.

Ég var að setja teljara inn á síðuna mína. Veit svo sem ekki til hvers, bara rétt til að sýnast. Ætla samt ekki að gera eins og einn vinur minn - hann "Refresh"- aði síðuna 10 sinnum á dag því það væri svo kauðalegt að halda úti heimasíðu sem enginn skoðaði. Betra að svindla aðeins en að láta "engan" sjá að "enginn " skoðaði síðuna !!

Ég er ekki alveg nógu hress með veðrið um helgina, það rigndi og og lét öllum illum látum - átti ekki að vera komið sumar ? Bóndinn sagði að þetta stefndi í rigningasumar, en þá getum við alveg eins sagt að sl. vetur hafi verið snjóavetur - það snjóaði jú a.m.k. þrjá daga samfleytt einu sinni eða tvisvar. Sumir eru bara alltaf hæfilega bjartsýnir !!

Svo er það Eurovision-lögin ! Synir mínir eru með "bara horfa, ekki hlusta" mat á keppendum. Þeir leyfa mér náðarsamlegast að taka þátt. Það skásta sem ég hef séð er súkkulaðidrengur frá Kýpur, en miðað við myndatökuna er hann sennilega rétt um 1.60 á hæð. Algjör stubbur, sem sagt. ( Í minni fjölskyldu eru stubbamörkin við 1.80 m.)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?