<$BlogRSDURL$>

júlí 10, 2003

Leikritið var um tvær systur - aðra stóra og hina litla. Tommustokkur var í öðru aðalhlutverkinu og sýndi hvernig stóra systirin minnkaði smátt og smátt meðan hin stækkaði að sama skapi.

Sérkennileg tilviljun að leikkonan/höfundurinn skuli eiga systur sem er 14 ára og töluvert hávaxin !!

Systurdóttir mín og nafna, 6 ára, er búin að vera hjá mér síðan í fyrradag. Í gær fórum við í skógargöngu og heimsókn til Möggu (sem einu sinni var alltaf kölluð Mjallhvít) í Fljótsdalinn auk þessa að fara og skoða páfagauka, finkur og gullfiska í gæludýrabúðinni á Egilsstöðum. Núna er hún að semja og æfa leikrit sem mér verður sýnt innan stundar. Það er að einhverju leyti byggt á "Síðasti bærinn í dalnum" - held ég, án þess ég viti það fyrir víst. Bíð bara spennt.

Hér er mynd af Þórunni, sem tekin var uppi í skógi í gærmorgun, áður en það byrjaði að rigna.

Nú er best að drífa sig í leikhúsið.


júlí 08, 2003

Ég fór í Egilsstaði í gær, en datt í hug að koma við í Sólskógum, gróðrarstöðinni þeirra Gísla og Kötu. Keypti mér nokkrar plöntur til að setja í beðið mitt. Það er nefnilega stefnan að það verði svo þéttur gróður í beðinu að illgresi eigi sér þar enga lífsvon. Þetta er víst óhemju bjartsýni, en hvað með það.

Þegar heim kom fór ég á stúfana að leita mér að gömlum skít til að setja í beðið. Þá rakst ég á umferðarfulltrúa Landsbjargar (eða eitthvað álíka) þar sem hann lá í leyni með hraðamæli og mældi hraða bíla sem keyrðu í gegnum skóginn. Það er 50 km hámarkshraði í gegnum staðinn en hann var að mæla bílana á upp í 100 km hraða. Stóru vörubílarnir sem keyra hér í gegn á leið sinni til og frá Kárahnjúkum, mældust á upp í 90 km hraða og meira að segja lögreglubíllinn sem keyrði í gegn var á 70 km hraða. Það verður að segjast vörubílsstjórunum til hróss að þeir létu greinilega vita í talstöðinni að verið væri að hraðamæla og eftir að fyrstu þrír bílarnir voru komnir í gegn, hægðu hinir bílstjórarnir á sér og vinkuðu brosandi. Það er líka kosturinn við að verða fyrir vörubíl að það eru meiri líkur á að maður bara steindrepist en verði ekki að örkumla grænmeti á stofnun það sem eftir er ævinnar.

Ég auglýsi hér með eftir mótvægisaðgerðum Landsvirkjunar, sem ætlaði að leysa þetta vandamál hér með lagningu göngu- og hjólreiðastíga. Við erum bara komin með umferðina - ekki gangbrautir og hjólreiðastíga.

Ég auglýsi eftir lögreglumönnum sem væru til í að taka nokkrar rispur í að mæla ökuhraða hérna í skóginum á næstu dögum. Ef veðrið verður sæmilegt á næstu vikum, fara a.m.k. 10.000 bílar í gegnum skóginn, u.þ.b. helmingur þeirra á ólöglegum hraða.


júlí 06, 2003

Ég er búin að slá garðinn, byrjuð að lagfæra beð sem er búið að safna í sig dálitlu af illgresi og búin að fara í brúðkaup frænku minnar. Það var fjölmennt og fjörugt, enda eru báðir ættleggir fjölmennir sem að henni standa. Þar að auki missti hún föður sinn (bróður minn) aðeins 8 ára og ólst upp hjá móður sinni og seinni manni hennar sem líka á dágóðan ættlegg í kringum sig. Brúðguminn er ættaður sunnan af landi og því var mun færra af hans fólki viðstatt.
Veðrið var alveg þolanlegt og brúðkaupið fór fram í gilinu, sem við krakkarnir kölluðum alltaf Hænsnagil, því þar rétt hjá var hænsnakofinn og hænurnar rótuðust gjarnan í þessu gili á sumrin. En núna er karl faðir minn búinn að gera þetta að sannkölluðum sælureit, bolla sem er umlukinn skógi á alla vega, svo djúpur að þar er nánast alltaf skjól en nógu víður, þannig að sólin nær að skína þangað. Hænsnagilsnafnið er þó notað stundum ennþá svona til aðgreiningar öðrum giljum sem nóg er af í nágrenninu. Traðargil og Kjálkagil eru þeirra á meðal. Rétt fyrir neðan Hænsnagilið er svo Draugadýið . Bæði Kjálkagilinu og Draugadýinu tengjast sögur af göldróttum presti sem bjó á næsta bæ, Skorrastað.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?