<$BlogRSDURL$>

ágúst 23, 2003

Góða veðrið er ekki alveg búið að yfirgefa okkur. Sól og blíða, logn og 17 stiga hiti er ekki sem verst. Ég dreif mig á fætur tiltölulega snemma og fór út á pall. Þá heyrði ég í þyrlu, sem ekki er algengt hér í skóginum. Hún flaug yfir og ég hugsaði með mér að nú væri verið að fara með einhverja merkismenn inn að Kárahnjúkum. En, nei hún kom aftur og sveimaði fram og aftur í hlykkjum og sveigum yfir skóginum í u.þ.b. hálftíma.
Hver skyldi hafa leigt þyrlu til að vekja alla, sem hér búa og gista, fyrir kl. 10 á laugardagsmorgni ???

Maður spyr sig !!

Þegar ég kom heim úr vinnunni í gær frétti ég af grillteiti sem halda átti í Neðstareit. Svona hverfahátíð í tengslum við Ormsteiti. Við drifum okkur þangað, björninn minn og ég og hringdum í frumburðinn og skipuðum honum að mæta líka.
Þetta gekk allt upp, var bara gaman þegar allt kom til alls.
Það var reyndar á dagskránni að velja í lið til að taka þátt í keppni á Egilsstöðum, í einhverjum undarlegum keppnisgreinum. Við ákváðum, eftir að hafa rætt málið á almennum fundi, að bæta við okkar eigin greinum og tilkynna sigurvegarana strax. Adda sigraði í heyrnarkeppninni, þar sem sannað þótti að hún heyrði hrotur manna vítt um hverfið. Um þetta verður væntanlega skrifuð formleg lygasaga með titilinn "Adda og ofurheyrnin", þegar losnar um ritstífluna hjá Jóni Guðmundssyni barnakennara og fjöllistamanni.
Hin keppnisgreinin var gönuhlaup og var Sif úrskurðuð sigurvegari án keppni og án nokkurra mótmæla.

Ég rölti mig heim eftir teitið og var rétt komin inn úr dyrunum þegar hringt var í mig og mér boðið í svokallað Sissuvinakaffi. Sissuvinir er mjög einangraður félagsskapur sem varð til eftir að JG komst í tæri við ókeypis áfengi, sem að hans sögn er ákaflega göróttur drykkur. Félagið var síðan stofnað á snjóléttum júnídegi - félagar eru 5, heiðursfélagi 1 og svo auðvitað Sissa.

ágúst 22, 2003

Ég er með bílinn hans pabba gamla í minni umsjá þessa dagana. Það kom sér vel í morgun þegar ég þurfti að koma Grænlandsförunum tveim og öllu þeirra hafurtaski í flug. Það hefði verið yfirblaðinn lítill bíll ef Fiestan mín hefði þurft að bera þetta allt. Björninn minn er heima og var búinn að fá Fiestuna lánaða í dag. Hann hringdi svo í morgun, fúll, og sagði: "Vissirðu að það var sprungið á bílnum ? " En ég vissi það ekki - alveg satt. Hann fékk síðan að spreyta sig á að skipta um dekk og allt það, en kom svo við hjá mér og sagðist vera búinn að fá nóg af minni "DÓS" (með hæfilegum skammti af fyrirlitningu) að hann vildi fá bíl afa síns í staðinn. Og þetta á að heita karlmaður - a.m.k. verðandi.

ágúst 21, 2003

Á morgun fer bóndinn til Ameríku - þ.e.a.s. hann fer til Grænlands, en við fundum það út í gær að það væri miklu flottara að fara til Ameríku en Grænlands og Grænland er jú í Ameríku. Ergo - hann er að fara til Ameríku.
Ég heyrði í Steingrími J. segja í útvarpinu að það væri alveg óþarfi fyrir Íslendinga að vera alltaf að þvælast til annarra heimsálfa, það væri margt að skoða bæði í Færeyjum og Grænlandi.

Haldiði að við ættum að fara að senda hann á námskeið í landafræði ??

ágúst 19, 2003

Nú eru komnir tveir aðrir vírusar á fulla ferð. Og það þýðir að við getum fleygt frá okkur öllu sem við erum að gera, brett upp ermar og drepið þessi kvikindi (sem auðvitað eru ekki lifandi), lokað hurðum og byggt upp varnir.

OJJJJ - ÞETTA ER SVOOO LEIÐINLEGT !!!!!

Stjórnendur Kastljóssins og aðrir fréttasnápar gengu alveg fram af mér í gær. Í Kastljósinu sat forstöðumaður Hafró og fulltrúi blaðamanna og áttu að skiptast á skoðunum varðandi það sem kallað er "myndatökubann", en er að sögn Hafrómannsins, öryggisatriði. Þessi fulltrúi blaðamanna sagði Hafró-manninn ljúga, þetta væri bara yfirdrep vegna hræðslu við mótmæli. Stjórnendurnir reyndu ekki eitt andartak að sjá hlutina frá sjónarhóli Hafró og veiðimanna heldur mynduðu þau þrjú bandalag gegn Hafró-manninum og það lá við að þau segðu: Viðurkenndu það bara: Þú ert að ljúga !! Svona fólk á ekki að stjórna því sem á að vera umfjöllun sem dregur fram báðar hliðar málsins !

Annað sem ég var að hugsa:
Hvernig ætli manni liði sem ekki hefði stigið á reiðhjól á 18 ár, hefði síðast notað gíralaust hjól með bremsu í pedalanum. Honum hefði síðan verið fengið í hendur tæknilega fullkomið hjól með alls kyns gírum og græjum og yrði að fara sína fyrstu ferð fyrir framan kvikmyndatökuvél, vitandi það að hann yrði stimplaður glæpamaður ef honum tækist ekki að hjóla með glæsibrag !

Maður spyr sig !!!!

ágúst 18, 2003

Í gær var Hallormsstaðadagur Ormsteitis.
Frábært veður, frábær þátttaka í öllum uppákomum og frábær atriði.

Hjólabátakeppni í Atlavík - Keppni milli sveitarstjórnarmanna Fella og Austur-Héraðs. Fellamenn unnu með því að mæta aðeins tvö og smala síðan hraustustu mönnunum á svæðinu í bátana. Gaman samt.

Gönguferð - með sýningu á trjámælingum og fellingu - alltaf jafn gaman að sjá það.

Texas Chainsaw Mardi Gras - eða keðjusagarblús skógarmanna. Stórkostlegur flutingur á tónverki Charles Ross sem skrifað var fyrir 4 olíutunnur, fjórar keðjusagir og bassatrommu og síðan frumflutt í miðjum skóginum.

Tónleikar Aðalsteins Ásbergs og Önnu Pálínu - Skemmtileg uppákoma við varðeldinn í Neðstareit.

Þarna voru 150 manns u.þ.b. og allir virtust hafa gaman af.


ágúst 17, 2003

Ormsteiti hófst með látum á föstudagskvöld.
Ég kíkti aðeins á setninguna, hlustaði á bæjarstjórann og hljómsveitina Litríka postula. Þeir eru frumlegir þessir pjakkar. Tveir söngvarar og einn kassagítarleikari - lögin fara batnandi en textarnir þeirra eru frábærir. Skemmtilegur húmor í gangi. Ég skemmti mér vel, ekki síst við að horfa á viðbrögð áhorfenda - sumir vissu ekki alveg hvernig átti að taka þessu. Nefni engin nöfn í því sambandi.
Ég lét skrúðgöngu með orminn í farabroddi eiga sig og dreif mig heim.

Í gær fór ég á Vopnafjörð að heimsækja Laufey frænku - hún er 93 ára og er alveg ótrúleg manneskja. Hún er einhleyp og hefur alla tíð verið það. Hefur alveg þar til síðastliðið haust séð um sig sjálf og búið ein í sínu koti, Bjarmalandi. Í fyrrahaust datt hún og beinbrotnaði og var flutt á Vopnafjörð í framhaldi af því. Ég þekki enga mannveru sem er meiri karlremba en hún - hún veit ekki hvað þessar kerlingar halda að þær séu: Hún sagði m.a. að Stjáni (hver sem það nú er) hefði orðið svo lasinn núna í vikunni að hann hefði farið til læknis. Hann þyrfti samt örugglega að fara aftur til alvöru læknis því þessi stelputuðra væri náttúrulega enginn læknir !! Það var sem sagt einhver kona að leysa fastalækninn af í sumarfríi.
En hún er engu að síður skemmtileg, gamla frænka mín. Kaldhæðni er hennar aðalsmerki. Ég færði henni nokkrar myndir af börnum í fjölskyldunni, því ég veit að hún hefur mjög gaman af að skoða þær og sýna öðrum. En í gær sagði hún: Hvað á ég að gera með þetta? Fóðra kistuna mína að innan með þessu ? Ég svaraði henni bara í sömu mynt, hún gæti bara dundað sér við að troða þessu út um rifurnar á kistunni, sama væri mér ! Þar með vorum við komnar á beina braut í okkar spjalli.

Í dag er Hallormsstaðardagur Ormsteitis. Á dagskrá er hjólabátakeppni, skógarganga, keðjusagarblús, vísnatónleikar Aðalsteins Ásbergs og fjöldasöngur í Atlavík ásamt ýmsu fleiru. Veðrið er fínt og ekki ástæða til að ætla annað en þetta verði skemmtilegt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?