<$BlogRSDURL$>

september 05, 2003

Rakst á fréttavefinn www.skarpur.is. Leiðararnir þar - Húsavík í morgunsárið - eru býsna góðir !!

Á leiðinni inn að Kárahnjúkum í gær urðu á vegi okkar hreindýraveiðimenn. Við sáum líka hópinn sem þeir voru að eltast við - örugglega á annað hundrað dýr. Þeir höfðu greinilega haft erindi sem erfiði því eitt dýr lá í kælingu í Laugaránni, bundið við kerru úti í miðri á. Í bakaleiðinni sáum við gaurana með 2-3 dýr á kerru - voru að búa sig til heimferðar.
Þessir hafa átt einhverja aura því mér skilst að bara leyfið til að skjóta einn tarf sé nálægt hundraðþúsundkallinum. Þá áttu eftir að fá leiðsögumann, bíl og allt það, sem líka kostar sitt. Hver munnbiti af þessu kjöti verður því dálítið dýr.
Heppin var ég að borða þetta svo oft á árum áður að mér finnst þetta svona næstum hvunndagsmatur og dettur ekki til hugar að kaupa þetta kjöt dýrum dómum. Verð samt að viðurkenna að vel elduð hreindýrasteik er ákaflega ljúffeng.

Ég fór inn að Kárahnjúkum í gær, ásamt bóndanum og Rikku hinni dönsku. Veðrið var dálítið köflótt - ýmist sólskin eða rigning, rok eða logn eða bara sambland af þessu öllu. Það sem við sáum voru illa byggðar vinnubúðir, vegir á misjöfnu stigi uppbyggingar, yfirfullar rútur af óhrjálegum mönnum á leið frá vinnustað í búðirnar - sjálfsagt átt að gefa þessum greyjum eitthvað að borða.
Ég held að íslendingar ættu að gera eitthvað róttækt í máli þessara manna sem eru lokaðir þarna inni, lengst uppi í óbyggðum, vinna myrkranna á milli við hættuleg störf á skítakaupi - fá frí annan hvorn sunnudag og eru þá keyrðir í Egilsstaði þar sem þeir hafa ekki efni á að gera neitt, nema kannski fara í sund og kaupa sér kók í sjoppunni. Mér er alveg sama hverrar þjóðar þessir menn eru - þetta er ekkert annað en þrælahald !!

september 04, 2003

Við ætlum að gera aðra tilraun við Kárahnjúkana eftir vinnu. Það er að vísu dálítill vindur, en eftir rigninguna sem helltist yfir seinnipartinn í gær er loftið trúlega hreint og tært.
Ég var farin að halda að björninn minn væri eitthvað ósáttur við að vera í vinnubúðunum uppi á heiði, því hann er búinn að koma niður þrjú síðustu kvöld og hefur sofið heima. Vissi ekki alveg hvað ég átti að halda, þar til frumburðurinn sagði glottandi að litli bróðir væri að skjótast í pönnukökur. Það þýðir á þeirra máli að hann er að eltast við einhverja stelpu í Húsó . Þetta var alltaf kallað "Vetrarhjálpin" - þegar ungu mennirnir mættu í Húsó á kvöldin, en eftir að þeir synir mínir fengu eitt sinn formlegt boð í pönnukökur á laugardegi eftir ball, heitir þetta að "fara í pönnukökur".

september 03, 2003

Fósturjörðin fauk upp í öll vit á manni í gær. Hvöss SV-átt sem bar með sér býsnin öll af ryki. Það var einmitt í gær sem ég ætlaði að fara inn að Kárahnjúkum - alveg dæmigerð heppni.
Í staðinn fór ég á fótboltaleik, Höttur að keppa við Víking í Ólafsvík um sæti í 2. deild að ári. Hefði betur sleppt því - úrslitin urðu slæm og mér var tilkynnt á leið út af vellinum að ég væri sennilega óheillakráka - þetta væri trúlega allt mér að kenna.

Ekki sparkaði ég í andstæðinginn og var rekin út af ! Nei, Hattarmenn þurftu enga utanaðkomandi aðstoð við að tapa þessum leik, dómarinn lagði að vísu sitt af mörkum, en allir leikir hafa sinn dómara - ekki satt.

En þetta er ágætt. Nú hef ég pottþétta afsökun fyrir því að fara ekki á leiki.

september 02, 2003

Ég sá orminn í gær !! Lagarfljótsorminn sjálfan.
Ég var á leiðinni heim og sá eitthvað koma upp úr Fljótinu út af Ormsstaðavíkinni, eitthvað stórt og dökkt. Stoppaði bílinn og horfði á þetta smástund, keyrði svo heim í ofboði og sótti myndavélina. Hann var auðvitað horfinn þegar ég kom til baka. En þetta var örugglega hann !!!

Þar tapaði ég hálfri milljón, því sveitarfélagið er búið að heita þeim sem kemur með ófalsaða ljósmynd af kvikindinu 500.000 kr.

september 01, 2003

Úr dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu:

Um kl. 21:30 á föstudagskvöld var tilkynnt um pilt sofandi ölvunarsvefni í innkaupakerru í verslunarmiðstöð. Pilturinn reyndist ekki ölvaður heldur í góðu lagi, hann var að bíða eftir að komast í bíó.

Um kl. 3 aðfaranótt laugardags var tilkynnt um meðvitundarlausan mann liggjandi á gangstíg. Er lögreglan kom á vettvang reis maðurinn á fætur og gekk sína leið.

Er svefnsýki að ganga í borginni ??

Ég bara spyr !!

Ég er búin að heyra ýmsar sögur frá Grænlandi undanfarna daga en þessi toppar allar hinar:

Rasmus hinn danski er búinn að vera að vinna á Grænlandi í sumar og gjarnan verið fluttur á afskekkta staði og skilinn eftir með vistir í nokkra daga og síðan sóttur aftur á tilsettum tíma. Eitt skiptið átti að sækja hann á fimmtudegi en þá var ófært vegna veðurs. Föstudagurinn leið og enginn kom. Rasmus veiddi sér silung því vistirnar voru á þrotum. Borðaði silung í kvöldmat og afganginn í morgunmat daginn eftir. Sama sagan á laugardag. Á sunnudag var Rasmus orðinn leiður á soðnum silungi, fór að safna sér jurtum og rótum til að sjóða sér silungasúpu. Mýið var dálítið ágengt við hann þar sem hann sat yfir pottinum með súpunni, flugnanetið kom í góðar þarfir. En, þegar Rasmus tók pottinn af prímusnum og setti innihaldið, silungasúpuna góðu, í skál, urðu mýflugurnar á undan. Eftir augnablik var komin grá mýflugnaskán á diskinn. Rasmus, sem var orðinn verulega svangur, tók skeiðina sína og hrærði flugurnar saman við og át síðan allt saman !
Ástæðan fyrir því að hann var ekki sóttur var víst sú að Grænlendingurinn sem átti að sækja hann var í fjölskylduveislu sem stóð alla helgina. Hann kom svo á mánudegi og sótti Rasmus og var alveg hissa á að hann skyldi vera eitthvað að gera veður út af þessu.

Sunnudagurinn var notaður í skógarhögg í garðinum hjá Bjarna vinnufélaga mínum. Þar féllu 14 aspir í valinn og næsta sumar mun sjást til sólar í garðinum hans mest allan daginn en ekki bara milli 12 og 3 eins og verið hefur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?