<$BlogRSDURL$>

september 12, 2003

Ég var að lesa á blogginu hennar Nönnu um minningar þeirra systra og misjafna sýn á þá atburði.
Furðulegt með þessar systur sem eru árinu yngri, hvað allt sem aflaga fór í þeirra bernsku er okkur eldri systrunum að kenna. Systir mín var alltaf að meiða sig og ævinlega var sökin að einhverju eða öllu leyti mín. Ekki var það þó mín sök að hún var hálfblind og var þess vegna alltaf að reka sig á. T.d. brotna ljósaperu sem ég hélt á í hendinni, nú eða skammbitannn á skemmuloftinu, þar sem við lékum okkur að hlaupa á tunnum. Leikurinn sá fólst í að standa á tunnunni og halda sér í skammbitann, taka mið á næsta bita og reyna síðan að ganga á tunnunni þangað. Hún sá ekkert og nennti ekki að vera með gleraugu, því fór sem fór. Augabrúnir höggnar og göt komu á enni.
Hver heilvita maður sér að ég kom þar hvergi nálægt.

Mér voru gefnar nokkrar gæsabringur núna nýlega. Vandinn er bara sá að ég hef alla tíð haft andstyggð á fuglakjöti, lærði t.d. ekki að borða kjúklinga fyrr en eftir tvítugt. Ástæðan fyrir þessú er líklegast sú að móðir mín er haldin fuglafóbíu. Hún þolir ekki fugla nálægt sér, finnst þeir ógeðslegir á allan hátt.
En mér voru semsagt gefnar úrbeinaðar gæsabringur og er sagt að þetta sé herramannsmatur. Ég hef bara ekki græna glóru hvernig ég á að meðhöndla þetta hráefni. Lýsi hér með eftir góðum ábendingum.

september 11, 2003

Ég hjólaði í samtals 17 mínútur á þrekhjólinu í gær. Hljóðið er allt annað - nú vantar mig bara bæklinginn um hvernig á að stilla alla þessa helv. mæla - þannig að ég geti sé orkubrennsluna, hjartsláttinn, vegalengdina og allt hitt sem á að vera hægt að lesa út úr þessu. Ég kann á klukkuna, get stillt tímann og átakið en hinu nenni ég ekki að pæla í.
Einn galli er samt á þessu apparati. Ég get ekki hækkað sætið nægjanlega mikið, til að það henti mér. Sjúkraþjálfarinn minn segir að til að ná réttu átaki á þá vöðva sem ég er að þjálfa upp, þessa sem halda hnéskelinni á réttum stað, eigi ég að sitja þannig að hælinn nemi við pedalann í neðstu stöðu. Sætið á þessu hjóli er hins vegar ekki hærra en það að þegar það er í hæstu stöðu, næ ég næstum með hælunum niður í gólf !!

Annað hvort er ég of stór eða hjólið of lítið !! Getur einhver sagt mér hvort er rétt ??

september 10, 2003

Ég fékk lánað þrekhjól fyrir nokkru, staðráðin í að fara að nota það reglulega. Ég var búin að prófa nokkrum sinnum, en alltaf þegar ég var búin að þyngja aðeins stigið, fór að hvína þvílíkt í tækinu að ég og aðrir innanhúss ætluðum hreinlega að ærast. Í gær fékk ég svo bóndann, sem er ansi lagtækur með skrúfjárnið, til að kíkja á gripinn. Hann gerði það og eftir meðferðina gat ég hjólað án þess að vera að ærast af einhverjum hátíðnihljóðum.

Nú hef ég enga afsökun lengur.

september 09, 2003

Það var keypt skúffukaka með kaffinu hér í vinnunni í gær. Þegar biti nr. 2 var skorinn, kom í ljós langt og myndarlegt hár. Sumir fölnuðu og sögðust ekki hafa lyst. Aðrir sögðu, "Hvahh, þett'er bara hár !!" en fengu sér samt ekki neitt. Megrun eða eitthvað.
Svo voru þeir sem fengu sér ótrauðir bita - og sögðu: " Það þarf nú að minnsta kosti fingur til að ég hætti við !! ".

Ég er alin upp í stórum hópi systkina þar sem sísvangir bræður mínir gerðu alltaf tilraunir til að láta mann missa lystina, ef þá langaði í meira. Ég er því nánast laus við allan pempíuhátt í þessum efnum. Þess vegna varð mér það á um daginn að missa það út úr mér þegar ég var að lýsa því hvað mikið væri af hunangsflugum í beðinu hjá nágrannanum, að það hefði verið fljótgert að tína sér í sunnudagsmatinn. Vinnufélagar mínir sögðu fátt en eitthvað hreyfðust barkakýlin ótt og títt hjá sumum.
Í gærkvöldi var svo frumburðurinn að horfa á einhvern þátt í sjónvarpinu um steinaldarmenn, sem átu allt sem að kjafti kom. Hann kippti sér ekkert upp við það þegar lirfurnar hurfu ofan í kappana, en þegar einn þeirra tók stóra kónguló, bruddi hana og spýtti út úr sér loðnum löppunum, þá heyrðist eitthvert OJJJJ-hljóð frá honum. Hann hefur greinilega ekki verið hertur nóg í uppvextinum.


Ég var að lesa bókina "Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð" núna um helgina. Í henni er að finna alveg óborganlega brandara og í heildina tekið er bókin sprenghlægileg, þótt viðfangsefnið sé af alvarlega taginu, nefnilega vanlíðan fólks, andleg og líkamleg, sem verður til þess að það hefur mestan áhuga á að enda líf sitt.
Ein af aðalpersónunum í bókinni, Rellonen nokkur, á sumarhús við vatn. Meðal sumarhúsaeigenda við vatnið viðgengst sú hefð að sé tekinn tappi úr flösku, skal skilja 1/3 eftir í flöskunni, nú eða meira ef þannig vill til, tappinn rekinn í og flaskan sett út í vatnið. Því mega íbúar við vatnið eiga von á að finna drykkjarföng í fjöruborðinu ef þeir fá sér göngutúr. Ekki amalegt það.

september 07, 2003

Ég fór út í skóg í gær og tíndi mér svolítið af hrútaberjum. Hrútaberjahlaup er alveg nauðsynlegt að eiga með góðum ostum og rauðvíni á dimmum vetrarkvöldum. Vandinn við að búa það til er að nota rétt magn af stilkum og hálfþroskuðum berjum til að saftin hlaupi almennilega án þess að það þurfi að bæta í hana hleypi. Hann skemmir bragðið en það er samt skárra en að eiga bara hrútaberja "labb".

Rifsberin eru flest komin í fuglana - veit samt um stað þar sem venjulega er hægt að finna smávegis. Annars verð ég kannski að gera eins og hópur ónefndra kvenna gerði einu sinni:

Þær fóru út að Húsó, þar sem eru einhverjir gjöfulustu runnar staðarins, að kvöldlagi. Tvær voru sendar inn til að halda húsráðendum uppi á snakki, hinar fóru með fötur og klippur í runnana og tíndu af öllum kröftum. Þetta gekk allt saman upp, heilmikið náðist af berjum, þær sem voru inni fengu kaffi og með því og hinar komust óséðar burt. Tvennt var þó sem eyðilagði ánægjuna yfir vel heppnuðu plotti:
  • Rifsberjahlaupið misheppnaðist, sennilega vegna kunnáttuleysis þjófanna við matargerð

  • Næst þegar ein úr hópnum kom í Húsó, sagði skólastýran að henni rynni til rifja að öll þessi ber hefðu eyðilagst, þar sem enginn hefði haft áhuga á að hirða þau.

  • This page is powered by Blogger. Isn't yours?