<$BlogRSDURL$>

september 25, 2003

Ég heyrði ágæta setningu áðan, ekki spillti heldur að einstaklingurinn sem lét hana út úr sér er vel menntaður starfsmaður á heilbrigðissviðinu:

"Lækningamáttur letinnar er stórlega vanmetinn" !!
Ég eyði kvöldinu í sófanum - svo mikið er víst !

Ég fór til læknis áðan til að láta skoða hnút aftan á kálfanum sem farinn var að pirra mig. Læknirinn sem ég hitti á, sagði strax, að ég væri með ígerð í fætinum, sennilega útfrá flugnabiti, flís eða einhverju slíku. Ekkert ólíklegt þar sem ég er búin að vera að byggja timburkofa úti í skógi, valsa um allan skóg á stuttbuxum meira og minna frá því í byrjun júlí og flugna- og geitungafár verið með meira móti í sumar.
Hvað um það, hann sagðist geta gert tvennt, annað hvort gefa mér 10 daga skammt af pensillíni og vona það besta, eða skera í ófögnuðinn og vona það besta. Þar sem mér er illa við sýklalyf (þau fara t.d. mjög illa með rauðvíni) bað ég hann að draga fram hnífinn og fjarlægja þetta hið snarasta. Sem hann og gerði, sagði glaðhlakkalegur að þetta væri það skemmtilegasta sem hann gerði og ég held að ég hafi bjargað deginum hjá honum.

Ef þetta dugar, er ég mjög sátt, bæði með snarlega lækningu, nú og að ná í sama "höggi" góðverki dagsins.

september 24, 2003

Ég veit ekki nema að ég ætti að fara að skipta um vinnu. Það fer svo illa með mig að sitja með kaldan gustinn í bakið allan daginn.

Kannski gæti ég bara beðið Bjarna að loka glugganum hjá sér !
En þá verður svo þungt loft hérna.

Lokaðu samt glugganum - Bjarni minn!

september 23, 2003

Á sunnudaginn sat ég við að yfirfara efni sem pabbi minn hefur safnað og skráð og er að hugsa um að gefa út. Ég sé fram á að þetta verður heilmikil vinna en vonandi tekst okkur að fá í þetta einhverja styrki, þannig að dæmið gangi upp. Ég hef verið að afla mér upplýsinga um aðila sem veita styrki til útgáfustarfsemi af ýmsu tagi (og þigg allar góðar ábendingar þar um).
Veðrið hefur líka verið þannig að útivera heillar ekki mikið. Björninn minn var eins og skógarbjörn í laginu þegar hann kom heim úr vinnunni í gær, kuldagallinn ystur, síðan úlpan og svo peysan. Ég þarf svo að fara í dag og finna handa honum norskar ullarbuxur, þessar bláu sem hann hefur ekki fengist til að nota síðan hann var innan við fermingu, nema í garðvinnu og á rjúpnaveiðum með afa sínum. En núna finnur hann á eigin skinni að það borgar sig að vera vel klæddur.

Ekki vill hann verða eins og Ítalirnir og Portúgalarnir sem sitja kappklæddir og nötrandi inni í bílunum, með miðstöðina á fullu og neita að fara út. Kuldinn sé svo óskaplegur. Það er vissulega kalt uppi á Fljótsdalsheiði í norðan strekkingi og 6-8 stiga frosti en þetta er samt bara forsmekkurinn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?