<$BlogRSDURL$>

október 10, 2003

Það var verið að bjóða mér í partý í kvöld - spurning hvort ekki sé rétt að ná sér bara í kippu af öli og mæta í partý hjá Nínu.

Almennilegt fólk sem nennir að halda partý !!!

Ég er búin að sitja við að forrita í gagnagrunninum í dag og í gær. Áðan stóð ég upp og var hársbreidd frá því að segja upp vinnunni, labba út og fá mér þægilega vinnu, þar sem ég þarf ekkert að hugsa frekar en ég vil. Svaf illa í nótt af því að ég var ekki búin að finna lausnina á vandamálinu þegar ég fór heim í gær.
Áðan fékk ég svo draslið til að virka og þvílíkt kikk sem það gefur þegar lausnin finnst allt í einu. Þá verða allar hugmyndir um "þægilega vinnu þar sem engrar hugsunar er þörf" að engu.
Ég er sem sagt búin að tengja saman nokkuð sem kallast ORACLE SPATIAL DATABASE og svo heimasmíðaða gagnagrunninn minn og get farið að skrá fullt af upplýsingum inn á reiti á kortum. Ekki neitt leiðinlegt við það !!!

október 09, 2003

Á afmælinu mínu í fyrra var ég fyrst boðin í mat á fínum veitingastað og síðan í partý í sumarbústað í Einarsstaðaskógi.

Var svolítið fúl yfir því fyrst að vinnufélagar mínur þáverandi skyldu endilega þurfa að nota MINN afmælisdag fyrir partýið, en svo mætti ég bara og skemmti mér vel, ef ég man rétt.

Það var svona tilraun til afmælisráns.

Það er búið að stela afmælisdeginum mínum !! Það hefur ekki gerst síðan Reagen og Gorbasjov hittust í Höfða hérna um árið. Ég man aldrei hvaða ár það var en daginn man ég af því það var á afmælinu mínu 11. október. Ég gat auðvitað ekki annað en látið það yfir mig ganga. Þar með fannst mér ég vera leggja mitt af mörkum til að gera heiminn friðvænlegri. En núna get ég ekki orða bundist:
Landsleikur í fótbolta - sem tapast örugglega og mér verður kennt um - ekki síst vegna þess að ég er gjarnan beðin um að vera heima eða að horfa a.m.k. alls ekki á svona mikilvæga leiki. Ég sé óheillakráka sem eigi sök á því að leikir tapast.
Þetta er auðvitað algerlega úr lausu lofti gripið og mér finnst þetta verulega ósanngjarnt.
Það er líka verið að auglýsa grimmt annan landleik, formúlu-undanrásir og lokakeppni og ég veit ekki hvað. Ég fylgist lítið með þessu sjálf, en veit að þessir 3 karlmenn sem ég bý með, bóndinn, frumburðurinn og björninn, munu ekki víkja frá sjónvarpstækinu allan laugardaginn 11. október. Kannski ég fari bara í saumaklúbb hjá Siggu Jóns í Reykjavík !!

október 07, 2003

Það er ýmist of eða van. Í gær var ég svo svöng að ég gat ekki hugsað en í dag er því alveg öfugt farið. Bossinn mætti á svæðið og bauð vinnudýrunum í Pizzu í hádeginu. Ég get samt ekkert hugsað neitt skýrar í dag en í gær. Kannski hefur þessi skortur á einbeitingu ekkert með ástandið á maga mínum að gera, heldur það að þegar ég er búin að sitja við tölvu í marga tíma samfleytt, fer þreytan að gera vart við sig.
Þá er ágætt að láta hugann hvarfla aðeins, fara á bloggið og bulla smávegis og halda svo áfram að forrita gagnagrunninn. Eins gott að gera ekki margar villur í því verki. Þær koma í bakið á manni þegar verst gegnir.

október 06, 2003

Mánudagur - fundardagur - frá kl. 10 til kl. 3, bara smámatarhlé um tólfleytið. Ég nennti ekki að fara neitt út í slydduna, þannig að hádegismaturinn varð einn banani og eitt epli. Ég er orðin svo svöng að ég er hætt að geta unnið neitt af viti. Er búin að klára fundargerðina og ætla að fara að senda hana til þeirra sem fundinn sátu. Ég lendi sjálfsagt í því núna sem ég forðast yfirleitt en það er að fara mjög svöng út í búð. Þá kaupi ég alls konar óþarfa og eitt og annað sem mig dauðlangar í þá stundina en kemst svo ekki yfir að borða þegar heim kemur.

Það er mjög óhagkvæmt að versla í matinn - og vera svangur.

Hvort á ég þá að fá mér að borða fyrst og versla svo eða geyma innkaupin þangað til á morgun ?

október 05, 2003

Helgin er að verða búin og hefur farið að mestu í heimilisstörf sem vilja safnast upp yfir vikuna þegar mikið er að gera í vinnunni. Ætlaði að skreppa á Norðfjörð í gær en hætti við þar sem tiltektin á heimilinu tók lengri tíma en ráðgert hafði verið. Hugsaði með mér, "fer bara á morgun í staðinn" og ég fór. Komst svo að því þegar ég kom áleiðis upp í Oddskarð að þar var brjálaður bylur og ekkert færi fyrir "vanbúna bíla" eins og minn farkost. Svoooo, við snerum við, já bóndinn var með mér og hann er nú ekki þekktur fyrir að gefast upp, fórum heim aftur og játuðum okkur sigruð í þetta skiptið.

Segir ekki einhvers staðar: Frestaðu aldrei til morguns því sem þú getur gert í dag !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?