<$BlogRSDURL$>

október 24, 2003

Í gær fór ég á Norðfjörð til að vera við jarðarför.

Ég var búin að segja foreldrum mínum að ég yrði komin kl. 1 og við ætluðum að verða samferða. Ég var að vinna fram til 12 - tafðist í korter vegna símtals og var því orðin svolítið stressuð. Dreif mig af stað og mundi þegar ég var komin vel áleiðis, að ég hafði gleymt að taka bensín. Lét slag standa og keyrði áfram á Reyðarfjörð og hökti á síðustu dropunum inn á Shell á Reyðarfirði. Stökk út við sjálfsafgreiðsludæluna og byrjaði að dæla á. Dælan reyndist biluð, og eftir nokkurra mínútna baráttu gafst ég upp, fór inn og borgaði þessa fáu lítra sem ég hafði náð, fékk að vita að einhver hafði keyrt frá dælunni með stútinn í tanknum og stúturinn var skemmdur.
Afgreiðslumaðurinn hafði sem sagt horft á mig bisa þetta án þess að finna hjá sér þörf til að koma út og segja mér að dæluhelv*** var í ólagi.
Klukkan var orðin korter í eitt og ég ekki komin nema á Reyðarfjörð. Ég keyrði eins og druslan dró - vonaði að löggan væri í mat - verði þeim að góðu. Rétt neðan við Oddskarðsgöngin lenti ég á eftir olíuflutningabíl með tengivagni. OK, keyri hvort eð er ekki hratt í gegnum göngin - en þegar olíubíllinn stoppaði í miðjum göngunum var mér nóg boðið. Skýringin var sú að olíubíllinn var of stór til að komast í útskotið og bílarnir tveir, sem á móti komu, urðu að bakka til baka í næsta útskot. Ég var komin til foreldra minna 10 mínútum áður en við áttum að vera komin út í kirkju og átti þá eftir að vippa mér í betri fötin. Vill til að ég nota yfirleitt ekki langan tíma í slíkt !

Tímaplanið var svo þannig að ég ætlaði að vera komin í Egilsstaði aftur klukkan 7 - því bóndinn var að koma með kvöldfluginu heim. Það gekk vel og ég var komin í Egilsstaði um hálf sjö, nógur tími til að skreppa í búð og svoleiðis. Hringir þá ekki bóndinn og segir mér að fluginu hafi seinkað og a.m.k. klukkutím þar til hann komi. Þá mundi ég eftir því að Gleðikvennafélag Vallahrepps var með fund á Café Nielsen og skellti mér þangað, þó svo ég hafi í fyrradag verið búin að afboða.
Það reddaði málunum, eftir klukkutíma var ég búin að borða ágætis mat, reka af mér slyðruorðið sem gleðikona ( NB!! sem samsvarandi orðinu gleðimaður) og komin út á völl að sækja bóndann.
Þegar heim kom, kíktum við í afmæli hjá litla kartöflubóndanum, 9 ára pjakk, sem er dyggur aðstoðarmaður okkar hjóna við kartöflurækt og ýmsar aðrar framkvæmdir.


október 23, 2003

Fékk þetta sent í tölvupósti áðan:

Nú er verið að hanna viðvörunarmerki í Bandaríkjunum til að setja á áfengisflöskur. Ljósrit af því fór á flakk, svo hér
má sjá sýnishorn af því sem Bandaríkjamenn ætla hugsanlega að setja á allar vínflöskur:
  1) Þú átt á hættu að dansa eins og fífl ef þú drekkur úr þessari flösku.

  2) Neysla áfengis getur orðið þess valdandi að þú segir sömu leiðinlegu söguna aftur og aftur,
  þar til vini þína langar mest til að berja þig.

  3) Neysla áfengis getur orðið til þess að þú "þegir þlutina þvona".

  4) Neysla áfengis getur komið þeirri ranghugmynd inn hjá þér
  að fyrrverandi elskhugar þrái að heyra í þér klukkan fjögur að morgni.

  5) Neysla áfengis getur orðið þess valdandi að þú hafir ekki hugmynd um
  hvar nærbuxurnar þínar eru niðurkomnar.

  6) Neysla áfengis getur orðið til þess að þegar þú opnar augun morguninn eftir
  sjáirðu eitthvað sem vekur þér ótta (eitthvað, sem þú getur ómögulega munað hvað heitir).

  7) Neysla áfengis getur valdið því að þú teljir þig miklu laglegri,
  og gáfaðri en þú ert, sem getur leitt til óteljandi vandræða

október 22, 2003

Í fréttunum í kvöld var fjallað um fornleifaleit á væntanlegu álversstæði í Reyðarfirði. Er skemmst frá því að segja að ef frá eru taldar fornar rústir af einhverju sem hugsanlega er naust eða einhvers konar sjóhús, hafa þessir ágætu fornleifafræðingar og grafarar þeirra ekki gert neinar merkar uppgötvanir - nema að þarna lá hundurinn grafinn og búinn að vera það í einhverja áratugi.
Í dagsljósinu var svo spjallað við Helga Hós. - en einhvern veginn fannst mér spyrjendur og aðrir vera að passa sig á að segja ekkert sem stuðaði karlinn. Hann er reyndar rakinn snillingur - þessi karl - þorir að segja upphátt það sem við hin hugsum stundum en nennum ekki að standa í að hafa skoðun á - opinberlega.

Já - ég er að vinna í alls konar svona javaskriftum, html, asp.net og Oracle-gagnagrunnsforritun í SQL. Þetta hljómar örugglega alveg hræðilega í eyrum þeirra sem ekki vita um hvað málið snýst. En hafi þróunin orðið hröð í smíði tölvubúnaðar, hefur tækninni ekki síður fleygt fram í hugbúnaðinum.

október 21, 2003

Skrítnir svona dagar - ég gat lítið sofið í nótt, sofnaði ekki fyrr en undir morgun - vaknaði svo við vekjaraklukku - mína eigin að ég hélt - klukkan sem sagt að verða 8. Stökk á fætur og sá að synir mínir voru ekki farnir að hreyfa sig og vakti þá. Þeir voru báðir frekar undrandi, því klukkan var ekki nema tæplega 7 og engin ástæða til að vera að flýta sér.

Ég var ónýt fram yfir hádegi, en eftir að hafa sofnað í 1-2 tíma var ég farin að hressast, sat með fartölvuna inni í rúmi og vann í gögnunum hans pabba. Dagurinn var ekki alveg ónýtur eftir allt saman.

Á fimmtudaginn þarf ég að fara til jarðarfarar. Það er svo einkennilegt hvernig sumt fólk fær miklu stærri skammt af áföllum í lífinu en aðrir. Dóttir konunnar - sem verið er að jarðsetja - er jafngömul mér. Hún var orðin ekkja með 3 börn þegar hún var 25 ára. Síðan er hún búin að missa föður sinn, bróður sinn, tengdaföður sinn (föður seinni manns síns) - alla á sviplegan hátt, í slysum eða bráðum veikindum - og núna er móðir hennar látin.

Bóndinn er í Kongsvinger í Noregi að skoða gróðrarstöð og læra eitthvað um meðhöndlun plantna - þeir eru svona þessir skógarmenn - eins og sjómenn sem fara í laxveiði þegar þeir eiga frí - nota fríið sitt í að skoða skóginn - eða þannig.
Strákarnir okkar segja þegar fjölskyldan hafi farið í sumarfrí innanlands hér áður fyrr, hafi þeir alltaf verið að fara í hina og þessa skóga og skoða hin og þessi tré. Nokkuð til í þessu - en það er bara svo gott að vera í skóginum - hvort sem er heima eða heiman.

Ligg í bælinu - einhver leiðindapest í mér í nótt - er ennþá óglatt og ekkert getað borðað í morgun. Nú er gott að hafa fartölvu og síma við rúmið !

október 20, 2003

Ég er búin að eyða drjúgum tíma um helgina í að þýða skjöl af Makkaformati yfir á PC. Þetta er ótrúlega seinlegt, því ég þarf að smella og velja eitthvað 9 sinnum á hverju skjali. Auk þess er slatti af þessum gögnum af eldri tölvu sem flækir málið enn meir. Það eina sem gerir þetta bærilegt er að margt af því sem þarna er að finna er skemmtilegt aflestrar, sögur og sagnir af ýmsu tagi.

Er annars að berjast við að leysa einhver forritunarvandamál sem ég held ég reyni ekki einu sinni að útlista hér - ekki nema svo einkennilega vilji til að einhver, sem veit allt um CustomValidate fallið í ASP.net, skoði síðuna mína.

október 19, 2003

Bóndinn hringdi frá Noregi, var þar akandi á Bens bílaleigubíl, eðalvagni, að hans sögn. Hann var á leiðinni til Lars skólabróður síns, sem býr austur við Skarnes - á óðali sem heitir Spikset.

Ég horfði á LmGM með öðru auganu, meðan ég eldaði Risotto handa mér og frumburðinum. Björninn minn fór nefnilega til Vestmannaeyja um helgina ásamt kvennaskólastúlkunni sem hann hefur umgengist mikið undanfarnar vikur. Hef lítið frá honum heyrt síðan hann fór en á von á að hann skili sér heim með kvöldfluginu. En aftur að LmGM - mér fannst GM orðinn ákaflega lítið fyndinn í sínum endalausu bröndurum um anda að handan og allt það. Skársta atriðið var "Hvar er húfan mín", skemmtilega klikkað lag og höfundurinn brilljant spaugari.

Spaugstofan átti sína punkta eins og venjulega, en mér fannst vera hápunktar þessa þáttar.

Horfði síðan á frekar slappa gamanmynd með John Cleese og hugsaði með mér: Af hverju er ekki hægt að sýna "Monty Python" í sjónvarpi allra landsmanna.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?