<$BlogRSDURL$>

nóvember 29, 2003

Hver þarf svo sem jólaskraut með þetta útsýni:
Ég rakst líka á tvo galvaska stráka sem kunnu vel að meta snjóinn og sleðabrekkuna:
Það hefur snjóað svolítið í nótt - svona jólasnjór sem verður örugglega horfinn eftir örfáa daga- þannig að núna ætla ég út að taka myndir. Set kannski eins og eina hér inn ef mér tekst vel til.

nóvember 27, 2003

Hvílíkt andleysi !
Ég les þessa síðustu færslu mína og hugsa: Hef ég ekkert betra fram að færa. Gerði ég ekkert merkilegt í gær ? Ég fór að vísu í sund....... og þá rifjast upp fyrir mér það sem ég var að hugsa þar sem ég svamlaði á bakinu og eitt og eitt snjókorn datt ofan úr himninum. Þetta var svona DEJA VU ! Ég vissi að í skúffunni minni var eitthvað krot þessu tengt, fór og leitaði og fann þetta:

Snjókorn

Ég ligg á bakinu
flýt þyngdarlaus
í hlýrri lauginni.

Stórar snjóflygsur falla
ofan úr myrkrinu,
dansa í ljósi kastaranna
og falla síðan
á hvað sem fyrir verður.

Sumar lenda í vatninu,
leysast upp og hverfa.
Sumar safnast á jörðina,
breyta lit hennar
úr svörtu í hvítt.

Sumar lenda í andliti mínu,
kæla og svala.
Ein lendir í auga mér,
veldur mér óþægindum
eitt augnablik.

Hversu líkt er ekki líf okkar snjókornum.

Ég ligg á bakinu,
svíf andartak
í heim snjókornanna,
þar til fætur mínir snerta botninn.


Ég verð að játa að í gær fann ég fyrir strengjum í handleggjum og smá stingjum hér og þar eftir alla hreyfinguna í fyrradag. Ekkert slæmt samt. Dagurinn varð ákaflega viðburðalítill.

Tíðindi dagsins urðu þau að við fengum staðfestingu á að það verður haldið áfram með verkefnið sem við erum að vinna í. Ég hef sem sagt vinnu út næsta ár, nokkuð ljóst og mikil öryggistilfinning sem því fylgir.

Fór heim eftir vinnu og gerði lítið annað en að horfa á sjónvarp og slappa af.

Ég er að búa til viðmót á frumgerðina okkar sem við eigum að sýna samstarfsaðilunum næsta þriðjudag, 9.des. Það er nú bara frekar skemmtilegt að vinna í svona HTML, ASPX og VB forritun, a.m.k. þegar vel gengur.

Ég fór svo aftur í badminton í dag. Veit vel að ég verð að passa á mér hnéð, en það vill gleymast í hita leiksins.


nóvember 25, 2003

Dagur mikillar hreyfingar.
Sjúkraþjálfun, reyndar ekki mikil hreyfing, heldur bara geislar og bylgjur, sundið í hádeginu, sem er að verða alveg ómissandi og svo fór ég í íþróttahúsið þegar ég kom heim, stalst til að spila nokkrar lotur í badminton, vann 3 og tapaði einni.
Það er svo GAMAN að spila badminton. Kemur svo bara í ljós á morgun hvort ég þoli það eða ekki.
Kom svo heim um 7-leytið og borðaði "Amerikansk farmarsoppa a la Skúli". Hún var nú bara þrælgóð.

Þú sem verður númer 1000 - kvittaðu á kommentin - verðlaun í boði !!

nóvember 24, 2003

Nóvembermyrkur

Nóvembermyrkur, rigning.
Ég leita í huganum að ljósi,
minningu sem lýsir.
Í luktu hólfi hugans finn ég skímu.

Við hlaupum berfætt
meðfram læknum
með spriklandi lontu í lófanum.
Við sitjum í gilinu
og látum okkur dreyma.
Mínir draumar og þínir,
loftkastalar og skýjaborgir,
um framtíð sem við eigum í vændum.

Við sitjum sitt á hvorri berjaþúfunni
og keppumst við
að fylla bláu Royal-baukana
af safaríkum krækiberjum.
Alltaf ertu á undan mér,
alltaf eru berin þín
laus við lyng og strá.

Við hittumst á mildum haustdegi
langt frá bernskuslóð.
Það er glampi
í glettnum augum þínum.
Barnið þitt fæðist í vor.
Framtíð þín, bróðir,
er orðin að nútíð.
Draumarnir orðnir að alvöru.

Nóvember, myrkur,
ég man þennan dag
þegar mér barst þessi fregn,
líf þitt var að engu orðið,
allir þínir draumar flognir burt.

Í litlu hólfi í huga mér ertu enn
og lýsir upp myrkrið
á dimmu nóvemberkvöldi.


(Þ.H. 24.11.1993)


nóvember 23, 2003

Tíðindalaust á austurvígstöðvunum !
Helgin búin að vera afspyrnuróleg, bara verið heima í rólegheitum og gert fátt eitt og lítið af hverju. Helstu afrekin verið að elda ágætis Lasagna í gærkvöldi, baka vöfflur með kaffinu í dag, setja í þvottavélina nokkrum sinnum og þrífa þvottahúsið.

Ég er alveg gjörsamlega og blessunarlega laus við þennan "jólaóróa" sem virðist vera kominn í fólk út um allt land. Kannski vegna þess að engin börn eru á heimilinu. Stundir sem varið er í að baka piparkökur eða laufabrauð, búa til jólakort eða föndra eitthvað með börnunum, fjölskyldunni eða vinunum - þeim stundum er vel varið. Samveran er svo dýrmæt, ekki síst á þessum síðustu tímum þar sem stór hluti barna dvelur í skólum eða dagvistun bróðurpartinn úr deginum.
Ég á erfiðara með að sætta mig við alla auglýsingamennskuna sem er að telja okkur trú um að jólin komi ekki nema við kaupum þetta eða eigum hitt.

Jólin koma, hvort sem við erum glöð, döpur, heilbrigð eða veik.
Jólin eru ekki eitthvað sem við kaupum, heldur eitthvað sem við sköpum sjálf.

Mínar bernskuminningar um jól eru sjóður sem er mér dýrmætur og ég vona að mínir synir geti sagt hið sama þegar þeir verða komnir á minn aldur.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?