<$BlogRSDURL$>

desember 20, 2003

Föstudagur með Litlu-jólum Hallormsstaðaskóla. Þar ríkir sú hefð að foreldrar, afar og ömmur, eldri nemendur og bara allir sem einhverjar taugar hafa til skólans mæta, horfa á jólaleikrit og hlusta á tónlist, drekka kaffi og borða kökur og dansa síðan í kringum jólatréð með tilheyrandi söng og jólasveinasprelli.

Það var fjölmenni - vægast sagt og allir fóru síðan glaðir heim í jólafrí.
Á morgun verður svo farið í skóg að sækja jólatré og síðan bakað laufabrauð hjá tengdó.

desember 19, 2003

Það verða engar 17 sortir hjá mér þessi jól frekar en endranær.
Ég er sem sagt búin að eyða tveim síðustu dögum í bakstur með dyggri aðstoð Bjarnarins, svona þegar honum hefur hentað.

Ég lendi alltaf í að gera einhver mistök þegar ég er að baka - sennilega af því ég baka svo sjaldan.
Núna lenti óvart strásykur í stað flórsykurs í súkkulaðispesíurnar - ég lét bara vaða og bætti smá hveiti við og bakaði þær svo eins og venjulega. Fínar kökur, bara svolítið öðruvísi.

Ég baka yfirleitt smákökur sem heita skeifur - ekki veit ég hvers vegna, því þær eru ekki skeifulaga, ekkert sem útskýrir þessa nafngift. Þetta er uppskrift sem tengdamóðir mín lét mig hafa fyrir margt löngu. Lengi vel var uppskriftin leyndarmál - en ég held að eitthvað hafi lekið út á seinni árum.
Þetta eru svona kryddaðar kökur sem lagðar eru saman tvær og tvær með gráfíkju- og sveskjusultu á milli.´
Vesen að baka þær, en svo góðar að erfiðið er þess virði.

desember 17, 2003

Í framhaldi af þessu rauðgreni- og blágrenispjalli kemur hér túlkun Jóns Guðmundssonar á viðfangsefninu:


Textinn fyrir neðan sést kannski ekki nógu vel, en þarna stendur:

Blágreni Rauðgreni Gulgreni Svartgreni Grængreni (segir sig eiginlega sjálft)

Ég er hins vegar að hugsa um að hafa síberíuþin þessi jól.

Kappinn Björn 

Björninn minn fór í gær út að hengja upp jólaseríuna, á stuttbuxum, af því það er svo "kappalegt", að hans sögn.

Hann bætti aðeins við klæðnaðinn, lopapeysu frá ömmu og norskum skíðagöngusokkum sem bóndinn eignaðist einhvern tíma fyrir mörgum árum.

Svona eru menn "kappalegir":


desember 16, 2003

Um jólatré ...... 

Ég er umkringd "jólatrjám" allan ársins hring. Bý í miðjum Hallormsstaðaskógi. Ég hef selt og höggvið jólatré, ráðlagt fólki um meðferð þeirra og hvaða tegundir séu til og hver sé munurinn á þeim.
Undarlegt hvað það er mikilvægt að taka einn af þessum nábúum sínum, flytja inn í stofu og skreyta með ljósum og glingri.
Hjá okkur tíðkaðist að fara út í skóg með sög og finna sér tré. Bóndinn var samt gjarnan búinn að taka út hugsanlega kandídata og réði því för.
Eitt árið komu hann og strákarnir með tré heim að dyrum, fallega furu, og báðu um úrskurð minn, er það nógu fallegt ? Ég sá ekki betur og samþykkti.
Á Þorláksmessu var tréð sett í fótinn, en reyndist þá svo bogið að toppurinn vísaði nánast beint "í norður" í stað "beint upp" !
Feðgar, Björninn og bóndinn, gölluðu sig upp og fóru til skógar að leita að nýju tré þó að það væri svartamyrkur og hálfgerður bylur. En þeir komu heim eftir dágóða stund með aðra furu, beina !!
Ég held samt að Birninum líði þessi ferð seint úr minni því hann upplifði þetta sem mikla hættuför, kafandi snjó upp í klof (sem þá var reyndar mun styttra en í dag), leitandi að jólatré með vasaljósi.

Þetta gerist þegar gæðaeftirlitið klikkar !

desember 14, 2003

Sunnudagur, sá þriðji í aðventu. Ætli sé ekki best að fara að "gera eitthvað". Það er alltaf verið að spyrja: " Ertu ekki byrjuð .... " ??

Á hverju ? Jú - jólaundirbúningnum -auðvitað.

Það vill vefjast aðeins fyrir mér hvað telst til slíks.

Er það jólaundirbúningur að mála eldhúsið ?
Er það jólaundirbúningur að sauma gardínur fyrir gluggana í forstofunni ?
Er það jólaundirbúningur að fara út að borða með vinnufélögunum, sitja og spjalla í góðu yfirlæti eina kvöldstund ?

Hef ekki áhyggjur af því - það virðist einhvern veginn allt skipta svo litlu máli gagnvart þeirri staðreynd að Björninn minn er heill heilsu þrátt fyrir veltuna. Svolítið eftir sig og marinn á sálinni, en annars í góðu lagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?