<$BlogRSDURL$>

desember 27, 2003

Annar dagur jóla að kvöldi kominn. Góðir, ljúfir dagar liðnir, hefðbundnir að mörgu leyti en alltaf þó eitthvað nýtt. Kirkjuferð og kvöldmatur hjá tengdó á jóladag.

Bækurnar sem ég hef verið að lesa, Bettý eftir Arnald - nokkuð góð en gefur þó vísbendingar óþarflega snemma, Agatha Christie - þokkaleg - svolítð þreytt, en sígild samt og svo er Da Vinci Lykillinn kominn á borðið. Já, ég er töluvert veik fyrir svona sögum, viðurkenni það.

Jólapúslan er skammt á veg komin, enda ekki byrjað á henni fyrr en í dag.
Synirnir á dansleik, en við gamla settið bara heima í rólegheitum. Búin að vera 3/4 af Víðivallabræðrum að spila við frændur sína - fyrst körfubolta í íþróttahúsinu og svo Risk hérna í stofunni.
Vonast eftir að komast á Norðfjörð milli hátíða, en gef engar tímasetningar upp - gert til að koma veðurguðunum á óvart. Þeir eru gjarnir á að setja strik í reikninginn ef við gerum einhverjar áætlanir um ferðir okkar.

desember 23, 2003

Það eru að koma jól á morgun ! Ég var búin að tala um að vera með Síberíuþin sem jólatré í ár, en í gær kom bóndinn heim með rúmlega 2 metra furu, rosalega fallega og hún er núna komin inn í stofu hjá mér. Eftir að skreyta og svona, en það verður gert á eftir. Lyktin af furunni er svo sterk að það liggur við að hún sé óþægileg - en verður strax betra á morgun.

Í fyrrakvöld komum við "Mjallhvít" mágkona mín okkur saman um að í stað þess að kaupa jólapúsl handa fjölskyldunum, ætlum við að skipta á púslum. Fengum nefnilega sitt hvora púsluna frá "ættingjunum í útlöndum" (þ.e. systur þeirra, sem býr í Vestmannaeyjum) í fyrra. Hún sleppur þá með að gefa púsl annað hvort ár - eða þannig !

desember 21, 2003

Já, laufabrauðið klárt, búið að senda pakka í allar áttir, bara eftir þeir sem eru í næsta nágrenni. Bóndinn fór með hóp í jólatrjáaleiðangur í gærmorgun - en er enn ekki búinn að finna tré handa okkur. Skiptir kannski ekki öllu, það væri þess vegna hægt að finna sér tré hérna úti í lóðinni ef því væri að skipta.

Skrapp upp í Víðivelli að heilsa upp á "Mjallhvíti", mágkonu mína. Hún er búin að fá alla strákana sína heim, þeir eru reyndar 4 en ekki 7 og engir dvergar. Hún stóð við bakstur og veitir sjálfsagt ekki af í alla þessa karlmenn.

Það kom til tals að í dag eru nákvæmlega fimm ár síðan þau fluttu inn í nýja húsið.

Aðfaranótt 16. mars 1998 brann íbúðarhúsið á Víðivöllum til kaldra kola, þau hjón og yngsti sonurinn voru heima og máttu þakka fyrir að sleppa lifandi. Aldrei kom annað til greina en að byggja upp aftur og á réttum 9 mánuðum var byggt nýtt hús frá grunni og flutt inn fyrir jólin 1998.
Við komum til þeirra á Þorláksmessukvöld - og þó að vantaði einn og einn hurðarhún, gardínur og hitt og þetta, skipti það engu máli. Þau voru öll svo glöð að vera komin HEIM aftur.
Svona er sumt fólk - það bognar kannski við áföllin, en réttir sig svo við og verður sterkara eftir en áður.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?