<$BlogRSDURL$>

janúar 17, 2004

Í gær tókum við okkur til og elduðum sameiginlega dálítið af fiski og öðru ljúfmeti, og borðuðum það auðvitað líka. Þegar ég segi við, meina ég mína fjölskyldu og nágranna okkar og vini - Jón og Kristínu og syni þeirra tvo.

Þetta var þrælgaman, bæði eldamennskan, sem skiptist þannig á milli manna að Jón var ábyrgur fyrir forréttinum - ofnbökuðum sveppum með gráðostasósu, við Kristín hjálpuðumst að við aðalréttina sem voru tveir: Saltfiskur í sparifötunum og rjómalöguð fiskibaka með, laxi, ýsu, rækjum, kartöflum og fleira góðgæti. Skúli og Gunnar Kristinn útbjuggu eftirréttinn, ávaxtasalat með ís og súkkulaði.
Frumburðurinn var reyndar upptekinn með lið ME í Gettu Betur, en var liðtækur í matnum þegar hann kom heim, eftir frækilegan sigur sinna manna. Þjálfarinn verður jú að standa "á hliðarlínunni" í hverri keppni.
Við horfðum EKKI á IDOL- ég hef reyndar aldrei horft á þennan þátt og er lítið viðræðuhæf um hann.

Að beiðni Jóns set ég hér inn örsögu sem hann páraði á blað rétt áður en þau fóru heim

Á GULLÖLD ÓMENNINGARINNAR
KOM PÍNULÍTILL FUGL ÞAÐ
VAR IDOLFUGL. SÁ FUGL
KOM SÁ OG SIGRAÐI ALLA
GULLBARKANA SEM HLUTU
ÞAÐ HLUTSKIPTI AÐ SITJA
MEÐ HENDUR Í SKAUTI
OG ÞAKKA FYRIR ÓNÆÐIÐ.

(J.G)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?