febrúar 26, 2004
Bolludagur - sprengidagur - öskudagur !
Ég hef ekki verið sérstaklega upprifin í blogginu undanfarið og á það sér ýmsar ástæður sem ég ætla ekkert að vera að rekja nánar hér. Þeir sem til þekkja, vita hvers vegna.
Við höfum svolítið verið að velta fyrir okkur hefðum og þá ekki síst breytingu á hefðum í sambandi við bolludag og öskudag. Í mínu ungdæmi, laust eftir miðja síðustu öld, voru bolluvendir búnir til úr prikum og litskrúðugum pappír. Hver átti sinn vönd og prikin voru geymd á vísum stað milli ára og endurnýtt eftir því hægt var. Snemma á bolludagsmorgni fórum við krakkarnir á fætur, flengdum heimilsfólk fyrst, en klæddum okkur síðan vel og fórum í flokkum milli bæja og flengdum þá sem ekki voru komnir á fætur. Síðar um daginn fórum við og fengum okkar bollur hjá þeim sem teknir höfðu verið í bólinu.
Menn brugðust misjafnlega við þessum innrásum:
Eldri maður, sem bjó á næsta bæ, lá þennan dag í rúminu þar til öll börnin, stór og smá voru búin að koma og flengja hann. Síðdegis bauð hann svo upp á bollur í stórum stíl.
Ein nágrannakonan var ekkert hrifin af að fá krakkaskarann allan inn, svo hún hleypti bara einum inn að flengja, en það stóð ekkert á bollunum hjá henni seinna um daginn.
Það var sem sagt ekkert óvenjulegt að við krakkarnir færum í bollukaffi á svona 3-5 stöðum þennan dag.
Sprengidagurinn var notaður til að sauma öskupoka og borða saltkjöt og baunir. Það var alveg ófært annað en að eiga 20-30 öskupoka í byrjun öskudags. Best var að koma þeim öllum á aðra og eiga helst enga eftir, en sjaldan held ég að það hafi tekist. Það var líka mikilvægt að enda daginn með engan af upphaflegu pokunum. Grímubúningar og sælgætisbetl nútímans eru siðir sem ég kynntist ekki fyrr en ég fór að vera á Akureyri á áttunda tug síðustu aldar.
Þetta hljómar allt eins og ég sé orðin hundgömul...... og kannski er ég það bara.
Ég hef ekki verið sérstaklega upprifin í blogginu undanfarið og á það sér ýmsar ástæður sem ég ætla ekkert að vera að rekja nánar hér. Þeir sem til þekkja, vita hvers vegna.
Við höfum svolítið verið að velta fyrir okkur hefðum og þá ekki síst breytingu á hefðum í sambandi við bolludag og öskudag. Í mínu ungdæmi, laust eftir miðja síðustu öld, voru bolluvendir búnir til úr prikum og litskrúðugum pappír. Hver átti sinn vönd og prikin voru geymd á vísum stað milli ára og endurnýtt eftir því hægt var. Snemma á bolludagsmorgni fórum við krakkarnir á fætur, flengdum heimilsfólk fyrst, en klæddum okkur síðan vel og fórum í flokkum milli bæja og flengdum þá sem ekki voru komnir á fætur. Síðar um daginn fórum við og fengum okkar bollur hjá þeim sem teknir höfðu verið í bólinu.
Menn brugðust misjafnlega við þessum innrásum:
Eldri maður, sem bjó á næsta bæ, lá þennan dag í rúminu þar til öll börnin, stór og smá voru búin að koma og flengja hann. Síðdegis bauð hann svo upp á bollur í stórum stíl.
Ein nágrannakonan var ekkert hrifin af að fá krakkaskarann allan inn, svo hún hleypti bara einum inn að flengja, en það stóð ekkert á bollunum hjá henni seinna um daginn.
Það var sem sagt ekkert óvenjulegt að við krakkarnir færum í bollukaffi á svona 3-5 stöðum þennan dag.
Sprengidagurinn var notaður til að sauma öskupoka og borða saltkjöt og baunir. Það var alveg ófært annað en að eiga 20-30 öskupoka í byrjun öskudags. Best var að koma þeim öllum á aðra og eiga helst enga eftir, en sjaldan held ég að það hafi tekist. Það var líka mikilvægt að enda daginn með engan af upphaflegu pokunum. Grímubúningar og sælgætisbetl nútímans eru siðir sem ég kynntist ekki fyrr en ég fór að vera á Akureyri á áttunda tug síðustu aldar.
Þetta hljómar allt eins og ég sé orðin hundgömul...... og kannski er ég það bara.