<$BlogRSDURL$>

apríl 16, 2004

Ég var að keyra heim frá Egilsstöðum í dag, eftir Vallaveginum auðvitað, þar sem lögboðinn hámarkshraði er 90 km. Ég var ein í heiminum á nýja bílnum mínum, engin umferð, auður vegur og var þess vegna komin í 110 alveg óvart. Og hvað haldiði, löggan birtist með væli og bláum ljósum, höfðu legið í leyni og nöppuðu mig.

"Þú mældist á 100 km hraða, þú veist hvað það þýðir er það ekki" ?
"Hámarkshraðinn er 90 km á þjóðvegum landsins, er ekki svo, hmm ?"
"Greinilegt að þú hefur brotið landslög, er ekki svo, hmmm ?"


Þá var mér nóg boðið:
"Ég tel að lög um hámarkshraða á þjóðvegunum séu úrelt, barn síns tíma og því dettur mér ekki í hug að fara eftir þeim. Ég tel mig ekki hafa brotið nein lög þar sem sannfæring MÍN segir mér að hámarkshraðinn eigi að vera hærri- 110 km t.d."

Löggurnar litu hvor á aðra og síðan á mig og skelltu síðan upp úr:
"Hva, heldurðu að þú sért dómsmálaráðherra ?"
Og svo skelltu þeir á mig handjárnum og teymdu mig inn í bílinn sinn, nú eða hefðu a.m.k. gert það ef ég hefði ekki verið að búa þessa sögu til.

Ég fór reyndar í Egilsstaði, en bara til að fara til læknis og verða mér úti um sýklalyf til að vinna á þessari pest sem hefur hrjáð mig allt of lengi.
Núna hefði ég t.d. setið í dýrðlegum kvöldverði á Hótel Héraði, ef ég hefði ekki afþakkað gott boð, þar sem ég gat ekki hugsað mér að sitja þar, hóstandi og snýtandi. Heima er best á best við í svona tilvikum.

Kvöldmaturinn: Þykkmjólk með sýklalyfjum og Bentasil í eftirrétt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?