<$BlogRSDURL$>

júní 04, 2004

Orðheppnir Fljótsdælingar 

Fljótsdælingar og Jökuldælingar eru þekktir fyrir að kunna að koma fyrir sig orði, enda hafa þeir lítið annað fyrir stafni yfir veturinn en að hugsa um slíkt.
Eitt sinn var ágætur Fljótsdælingur að setja upp sturtuklefa hjá tengdaforeldrum sínum. Klefinn var settur út í horn og stútarnir fyrir kranana lentu fyrir aftan. Bilið á milli var stutt, aðeins nokkrir sentimetrar. Fljótsdælingurinn klóraði sér í höfðinu og sagði: "Ég veit satt að segja ekki hvað ég þyrfti að drekka mikið af brennivíni til að verða nógu þunnur til að komast þarna á bak við".

Jökuldælingar tala gjarnan um landakot og landafundi - þegar heimagerðir göróttir drykkir eru í umræðunni og eru manna duglegastir við framleiðslu og neyslu þeirra. Kannski er þetta bara svona í þessum sveitum sem fjærst liggja sjó.

Það sagði mér maður áðan að Davíð væri að hugsa um að láta taka af sér BAUG-fingurna - sel það ekki dýrar en ég keypti.

Annars er bara að bresta á helgi, tónleikar á morgun, þar sem Jón Guðmundsson ætlar að spila á flautu sína - og fleira skemmtilegt. Sjómannadagur á sunnudaginn, en ég held ég nenni ekki í siglingu. Fer kannski á Norðfjörð seinnipartinn og heilsa upp á ættingja og vini. Læt það bara ráðast af veðri og vindum. Það er ekkert gaman að standa úti í rigningu og hlusta á ræður, en allt í lagi að fá sér kaffi og hitta skemmtilegt fólk.

Eyjastúlkan er væntanleg í kvöld eða á morgun og fjölgar þá enn í kotinu. En bara gaman að því.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?