<$BlogRSDURL$>

ágúst 28, 2004

Í dag ... 

Þennan dag fyrir 25 árum vaknaði ég heima hjá foreldrum mínum með óþægilegan verk á tveim stöðum, annars vegar í þumalfingrinum, sem ég hafði næstum höggvið af með hnífi sem ég var að stála fyrir föður minn. Við vorum að gera til hreindýr sem hann hafði skotið. Hinn verkurinn var af öðru tagi, seiðingsverkur í baki, sem kom og fór með sífellt styttra millibili. Það var engin ástæða til að hafa áhyggjur, sagði móðir mín, kona með reynslu. Þetta tæki allt sinn tíma. Ég var samt ekki í rónni fyrr en ég var búin að ná sambandi við bóndann, sem var staddur á Héraðinu. Og ég hafði rétt fyrir mér: Það var styttri tími til stefnu en flestir héldu. Ég þrjóskaðist við að bíða eftir bóndanum áður en ég fór á sjúkrahúsið til að fæða þar frumburðinn okkar, hann Ingvar, sem leit dagsins ljós síðdegis þennan dag.
Hann gerði okkur bóndann að foreldrum og því eigum við 25 ára foreldraafmæli í dag. Foreldrar mínir eignuðust sinn frumburð þennan dag fyrir 51 ári, því elsti bróðir minn er 51 árs í dag.
Til hamingju með daginn Ingvar og Steini.
Það var svo frekar umhent að vera með óvirkan þumalfingur vinstri handar fyrstu vikuna sem ég annaðist ungabarn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?