<$BlogRSDURL$>

október 24, 2004

Í vetrarbyrjun 

Þá er vetur genginn í garð - fyrsta hretið komið og farið, þó enn sé kalt. Ég fór í skógargöngu í gær og aftur í dag, enda er það hluti af endurhæfingunni eftir brjósklosaðgerðina. Á göngu minni í dag fann ég heilmikið af hrútaberjum, frosnum auðvitað, en vel ætum. Dálítið sérkennilegt samt að tína frosin hrútaber beint upp í sig.
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las bollaleggingar "Óskars" hins skelegga um erfðafræði í pólitík, ýmis skemmtileg atvik í kringum og eftir kosningarnar um síðustu helgi.

Vinnufélagi minn sagðist hafa farið með ömmu sína á kjörstað með því skilyrði að hún kysi ekki Framsóknarflokkinn. Veit fyrir víst að eiginmaður ömmunnar hefur líklega spólað hringinn í gröf sinni vegna pólitískrar úrkynjunar afkomendanna.

Á barnum á Hótel Héraði var ég að spjalla við bónda af Jökuldal sem m.a. sagðist halda að sonur sinn væri heyrnarskertur, því konan hans væri svo hávær, þegar hún fengi sér í glas, að hann sjálfur yrði að forða sér. "En hún drekkur sem betur fer sjaldan !", sagði karl svo.

Á sama bar hitti ég líka mann sem er mikill ættfræðigrúskari og hann tilkynnti mér að ég væri frænka hans, taldi upp einhver tengsl, ættingja, bæi sem ég væri ættuð frá og fleira í þeim dúr. Ég efast ekki um að allt sem hann sagði var satt og rétt, nema hvað hann var að taka feil á mér og annarri manneskju. Hann ætlaði ekki að trúa mér þegar ég sagði honum þetta, eftir að hafa látið hann vaða elginn dágóða stund. Þessi ágæta kona, sem hann var að ættfæra, er fimm árum yngri en ég og vel þekkt íþróttakona, svo ég má sjálfsagt vel við una.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?