<$BlogRSDURL$>

nóvember 17, 2004

Jólatré og jaxl 

Núna þegar rúmar fimm vikur eru til jóla, eru starfsmenn Skógræktarinnar í óða önn að leita að og fella jólatré handa landsmönnum. Þessa dagana er verið að leita uppi og merkja þau tré sem eiga að prýða götur og torg landsmanna þessi jólin. "Stóru trén", eins og þau eru kölluð. Því þarf að nýta til fullnustu þann stutta tíma dagsins sem er nægilega bjartur til að ganga í skóg og skoða trén. Það er töluvert kalt þessa dagana og því er ekki verið að fella núna. Trén eru miklu stökkari í frosti, nálarnar hrynja af í stórum stíl og greinarnar hrökkva í sundur við minnsta högg.

Ég er heima hjá mér þessa stundina, skrapp til tannlæknis eftir hádegið og hann fann upp á því að taka úr mér endajaxl ! Ég er nefnilega komin svo skammt á þróunarbrautinni að endajaxlarnir mínir komu bara upp (eða niður) eins og aðrar tennur. Þurfti ekkert að skera þá burtu eða neitt svoleiðis vesen. Þeir bara komu af sjálfu sér og gerðu sitt gagn eins og aðrar mínar tennur. Nema þessi, hann hefur alltaf verið hálfgerður ræfill, eins og vanti alla burði í hann, viðkvæmur fyrir hita og kulda og eiginlega ekki til neins gagns. Ég hef hins vegar alltaf varið hann fyrir ágangi tannlækna, sem hafa ámálgað það oftar en einu sinni að það væri réttast að fjarlægja greyið. Ég vil bara hafa mínar tennur og ekkert múður með það.
En áðan varð ég að gefa eftir. Tannlæknirinn minn sagði mér að nú yrði ræfillinn að fara. Hann væri að gefa upp öndina og réttast væri að fara með hann eins og fótbrotinn hest, slá hann af. Og það var gert. Blessuð sé minnig hans!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?