<$BlogRSDURL$>

nóvember 06, 2004

Áttræður öðlingur 

Á miðvikudaginn var, 3. nóvember, varð Sigurður Blöndal áttræður. Sigurður er skemmtilegur karl með húmorinn í góðu lagi. Hann er maður sem kann að njóta lífsins gæða og eru til ýmsar sögur af honum tengdar því.
Sigurður reykir pípu, en hefur lengi haldið sig við þá reglu að keikja ekki í fyrr en um hádegi. Ég starfaði í nokkur ár hjá Skógrækt ríkisins og var þá stundum sett í að vinna með þeim gamla í ýmsum ritverkum. Það var segin saga að um ellefu-leytið var hann farinn að ókyrrast og um hálf-tólf var hann búinn að taka fram pípuna, troða í hana og totta, tilbúinn að kveikja í. Og á slaginu tólf, hvarf karlinn inn á skrifstofu, þar sem mátti reykja og hvarf í reykjarmökkinn.

Aðra sögu heyrði ég af honum, en sel hana svo sem ekki dýrar en ég keypti. Þá var Sigurður að vinna að blaðaútgáfu, var staddur í prentsmiðju í Fellabænum að lesa próförk og fékk aðstöðu til þess á skrifstofu framkvæmdastjórans. Framkvæmdastjórinn átti í fórum sínum Havana-vindil mikinn, sem hafður var til sýnis í glerhylki uppi á hillu og þótti mikið djásn. Er leið á daginn kom framkvæmdastjórinn inn á skrifstofu sína og gekk þar inn í reykjarkóf mikið. Sat þá gamli með vindilinn, tottandi og sagði: "Ég stóðst ekki freistinguna" !!

Í dag er haldin ráðstefna Sigurði til heiðurs, um hana má lesa á heimasíðu Skógræktar ríkisins, nú eða mæta bara í Íþróttahúsið á Hallormsstað. Það eru víst ennþá örfá sæti laus.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?