desember 20, 2004
Fyrir 30 árum
Fyrir 30 árum var ég um borð í strandferðaskipi á leið frá Akureyri til Norðfjarðar. Það var eina leiðin til að komast heim í jólafrí. Við fréttum um snjóflóðin áður en við fórum til skips, en símakerfið var ekki beisið í þá daga og við náðum engu sambandi heim. Ferðin var skelfileg, veðrið slæmt og margir sjóveikir. Ég er hins vegar frekar sjóhraust og man ekki eftir að mér liði neitt illa líkamlega, en andleg líðan var skelfileg. Við vorum nokkur frá Norðfirði saman um borð og hlustuðum nákvæmlega á allar útsendingar Ríkísútvarpsins. Fréttirnar voru hræðilegar, fjölda manns saknað og svo fóru að koma fréttir af því að einhverjir hefðu fundist látnir. Samt gerði ég mér fyrst grein fyrir hvað þetta var skelfilegt þegar ég heyrði að Árni Þorsteins hefði fundist á lífi og lítið meiddur í gryfjunni fyrir neðan frystihúsið. Ég man að tilfinningin var eins og einhver hefði stungið snjókúlu á bert bakið á mér. Ég gerði mér skyndilega grein fyrir því að þeir sem fundist hefðu látnir eða væru ófundnir væru örugglega fólk sem ég þekkti, jafnvel úr minni nánustu fjölskyldu.
Mín fjölskylda slapp í þetta skiptið, en heimkoman var ekkert venjuleg. Ferðin tók 1 1/2 sólarhring og þegar ég kom í land í Neskaupstað, var mér sagt að enn væri ekki búið að opna veginn heim til mín og að ég yrði að skilja dótið mitt eftir og fara heim, sitjandi aftan við nágranna minn á snjósleða. Leiðin lá yfir flóðasvæðið þar sem alls kyns hlutir, stórir og smáir stóðu út úr snjónum, undnir, snúnir og afkáralegir. Þetta var eins og að lenda inn í mynd eftir Salvador Dali.
Ég kom heim klukkutíma eftir að rafmagnið kom, en þá var búið að vera rafmagnslaust í 2 sólarhringa og ég man ennþá hvað það var nístingskalt í herberginu mínu.
Það var gott að koma heim, en áfall að fá að vita við eldhúsborðið heima, hverjir það voru sem voru látnir, ófundnir, eða á sjúkrahúsi illa haldnir af ofkælingu. Fólk sem ég þekkti, foreldrar vina minna og vinnufélagar frá sumrinu áður voru þessum hópi.
Samfélagið var lamað af sorg. Allir sem gátu voru búnir að moka snjó, leita og finna, lífs eða liðna og halda áfram eins lengi og kraftar leyfðu. Allir búnir að bíða í ofvæni eftir að fréttum; hverjir hafa fundist, þakklæti vegna þeirra sem björguðust og sorg vegna hinna látnu.
Eins og pabbi minn sagði í dag: Þetta voru ömurleg jól !
Mín fjölskylda slapp í þetta skiptið, en heimkoman var ekkert venjuleg. Ferðin tók 1 1/2 sólarhring og þegar ég kom í land í Neskaupstað, var mér sagt að enn væri ekki búið að opna veginn heim til mín og að ég yrði að skilja dótið mitt eftir og fara heim, sitjandi aftan við nágranna minn á snjósleða. Leiðin lá yfir flóðasvæðið þar sem alls kyns hlutir, stórir og smáir stóðu út úr snjónum, undnir, snúnir og afkáralegir. Þetta var eins og að lenda inn í mynd eftir Salvador Dali.
Ég kom heim klukkutíma eftir að rafmagnið kom, en þá var búið að vera rafmagnslaust í 2 sólarhringa og ég man ennþá hvað það var nístingskalt í herberginu mínu.
Það var gott að koma heim, en áfall að fá að vita við eldhúsborðið heima, hverjir það voru sem voru látnir, ófundnir, eða á sjúkrahúsi illa haldnir af ofkælingu. Fólk sem ég þekkti, foreldrar vina minna og vinnufélagar frá sumrinu áður voru þessum hópi.
Samfélagið var lamað af sorg. Allir sem gátu voru búnir að moka snjó, leita og finna, lífs eða liðna og halda áfram eins lengi og kraftar leyfðu. Allir búnir að bíða í ofvæni eftir að fréttum; hverjir hafa fundist, þakklæti vegna þeirra sem björguðust og sorg vegna hinna látnu.
Eins og pabbi minn sagði í dag: Þetta voru ömurleg jól !