<$BlogRSDURL$>

desember 21, 2004

Jólahefðir 

Það er víða í bloggheimum rætt um hefðir tengdar jólum. Hefðir eru ágætar þangað til þær verða að kvöð.
Jólatré eru víða mjög hefðbundin. Bara fura, bara normannsþinur eða bara rauðgreni kemur til greina. Við hér þurfum ekki að fara langt eftir jólatré og höfum prófað fleiri tegundir en margir aðrir. Rauðgreni, blágreni, stafafura, lindifura og gott ef ekki bergfura, fjallaþinur og nú í ár verðum við með síberíuþin. Hann er dálítið gervilegur, en lyktin alveg frábær.
Ég baka þó nokkuð fyrir jól og verð að játa að mikið af því eru hefðbundnar tegundir, mömmukökur, döðlubrauð og fleira í þeim dúr. Ég baka samt bara það sem við erum sammála um að okkur langi í. Karlmennirnir eru bara nokkuð liðtækir í smákökubakstri og laufabrauðsgerð. Vorum einmitt hjá tengdó að baka laufabrauð í dag. Útskurðurinn var samvinnuverkefni, en að því loknu skiptum vip liði.
Strákarnir settu upp útiseríuna fyrir afa sinn, enda hann orðinn stirður til slíks, kominn fast að áttræðu. Það stóð á endum að við tengdamamma og bóndinn vorum búin að steikja brauðið þegar þeir voru búnir að setja upp seríuna Allt gekk þetta ljómandi vel hjá okkur.
Hefðirnar eru kannski meira bundnar við samveru, heimsóknir, spilakvöld og annað slíkt. Enda eru það stundirnar sem lifa í minningunni, en ekki hvort rjómaterta var á borðum eða ekki.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?