<$BlogRSDURL$>

desember 04, 2004

Í sveitinni ... 

Í sveitinni sér maður ýmislegt skemmtilegt. Hérna hjá mér háttar þannig til að ég sé úr baðherbergisglugganum beint yfir í garðinn hjá nágrönnunum mínum. Um hádegið var ég inni á baði og varð litið út um gluggann. Það vakti athygli mína að þrátt fyrir algjört logn, hristist stórt grenitré í garði nágrannanna. Ég fór að horfa eftir því hvað væri að gerast og sá þá Sissu í næsta húsi með greinaklippurnar á lofti, greinilega í einhverjum aðventuskreytingahugleiðingum. Það sem var sérstaklega skemmtilegt við þessa sjón var, að Sissa var á ökklasíðum náttkjól, hálfsíðum náttslopp og berfætt í inniskónum, þrátt fyrir að það hafi snjóað svolítið í nótt. Sérstaklega jólalegt.

Í kvöld ætla ég ásamt bóndanum og vinnufélögum mínum að fara á jólahlaðborð í Egilsbúð á Nesi. Ég er orðin í vandræðum með að tala um æskustöðvarnar. Ég er alin upp í Norðfjarðarsveit og fer oft á Norðfjörð en mér finnst Neskaupstaðarnafnið orðið hálfhjákátlegt eftir að sá kaupstaður sameinaðist tveimur öðrum og varð að Fjarðabyggð. Ég er að hugsa um að taka upp orðfæri þess fólks sem bjó í nágrenni við æskuheimili mitt þegar ég var barn og aldrei fór "út í bæ" eða "í bæinn" heldur alltaf "út á Nes" eða "út að Nesi".

This page is powered by Blogger. Isn't yours?