<$BlogRSDURL$>

janúar 17, 2004

Í gær tókum við okkur til og elduðum sameiginlega dálítið af fiski og öðru ljúfmeti, og borðuðum það auðvitað líka. Þegar ég segi við, meina ég mína fjölskyldu og nágranna okkar og vini - Jón og Kristínu og syni þeirra tvo.

Þetta var þrælgaman, bæði eldamennskan, sem skiptist þannig á milli manna að Jón var ábyrgur fyrir forréttinum - ofnbökuðum sveppum með gráðostasósu, við Kristín hjálpuðumst að við aðalréttina sem voru tveir: Saltfiskur í sparifötunum og rjómalöguð fiskibaka með, laxi, ýsu, rækjum, kartöflum og fleira góðgæti. Skúli og Gunnar Kristinn útbjuggu eftirréttinn, ávaxtasalat með ís og súkkulaði.
Frumburðurinn var reyndar upptekinn með lið ME í Gettu Betur, en var liðtækur í matnum þegar hann kom heim, eftir frækilegan sigur sinna manna. Þjálfarinn verður jú að standa "á hliðarlínunni" í hverri keppni.
Við horfðum EKKI á IDOL- ég hef reyndar aldrei horft á þennan þátt og er lítið viðræðuhæf um hann.

Að beiðni Jóns set ég hér inn örsögu sem hann páraði á blað rétt áður en þau fóru heim

Á GULLÖLD ÓMENNINGARINNAR
KOM PÍNULÍTILL FUGL ÞAÐ
VAR IDOLFUGL. SÁ FUGL
KOM SÁ OG SIGRAÐI ALLA
GULLBARKANA SEM HLUTU
ÞAÐ HLUTSKIPTI AÐ SITJA
MEÐ HENDUR Í SKAUTI
OG ÞAKKA FYRIR ÓNÆÐIÐ.

(J.G)

janúar 16, 2004

Ég var að leita að einhverju á netinu í dag og sá þá þessa andlitslyftingu sem fyrirtækið "Síminn" er að ganga í gegnum.
Hvað halda þeir eiginlega !

 • Að það að eyða 200 milljónum af almannafé dugi til að flikka upp á gamalt og gjörspillt fyrirtæki sem er í endalausri "samkeppni" við einkafyrirtæki, en situr sjálft á grunn-netinu, sem þjóðin hefur greitt af sköttum sínum, og nota það óspart til að hjálpa sér í samkeppninni !

 • Að það að eyða 200 milljónum af almannafé til að fegra þetta fyrirtæki þar sem starfsmenn hafa dregið sér fé og fríðindi- sumir komist upp með það og aðrir ekki.

 • Þeim væri nær að eyða þessum millum í að koma smærri stöðum úti á landi í samband við umheiminn. Við erum orðin þreytt á að heyra:

  Nei, því miður, það er ekki hægt að setja upp ADSL á Stöðvarfirði nema það séu tryggðir 30 notendur í eitt ár - fyrirfram!!

  Nei, því miður, þú getur ekki fengið ISDN - það eru allar símalínur í þinni sveit í notkun !!

  Nei, því miður getum við ekki leigt ykkur fasta línu, þið væruð vísir til að setja á hana Internet-þjónustu og fara í samkeppni við okkur !!

  Nei, því miður, við erum bara venjulegt hlutafélag, í eigu ríkisins- so what , með einkarétt á grunn-netinu - so what ?


  Ég er svo reið......


  janúar 14, 2004

  Jahhá ! Þá er nú búi að afhenda tónlistarverðlaunin. Ég veit svo sem ekki hvað mér finnst um niðurstöðurnar, ánægð með að Eivör Pálsdóttir fékk verðlaun og veit að frumburðurinn er sammála mér. Hissa á sumu, t.d. að Stefán Hilmarsson skyldi vera valinn popsöngvari ársins, ekki það að hann sé eitthvað verri en aðrir, það heyrist bara ekki svo mikið frá honum.
  Hjúin sem kynntu klikkuðu ekki á aulahúmornum - allt í lagi með það svo sem - en hefði ekki verið hægt að fá einhvern annan en Gísla Martein - BARA EINHVERN ANNAN - hann er svooo skelfilega leiðinlegur greyið.

  Ég fékk pakka í dag - Í honum var ekkert nema ein lítil bók: "Mömmur".
  Björninn minn er alveg sérstakur !

  Það er snjór úti - töluverður hér á Egilsstöðum, en nánast ekkert á Hallormsstað. Bara svona "þrifalag" eins og ég heyrði haft eftir lögreglunni á Patreksfirði nýlega. Ég sit ennþá við tölvurnar - núna er ég komin með tvær fyrir framan mig og er að vinna inni á einni til viðbótar með "Remote desktop". Ef ég hef ekki verið komin með tölvunördastimpilinn fyrir, er hann örugglega kominn núna.

  Ég er komin í gang með hreyfingarátak, fer í sund eða spila badminton eins oft og færi gefst. Er að fara í sund núna, gott til að ná úr sér ónotunum eftir lætin í badmintoninu í gær. Við vorum þrjár þannig að ég spilaði mestmegnis ein á móti Möggu og Kristínu. Þær reyndu allar aðferðir til að klekkja á mér- án árangurs !! Ég vann !

  janúar 13, 2004

  Nú snjóar og snjóar. Snjórinn er blautur og þungur og ef ég væri barn núna, væri ég úti að búa til karla og kerlingar úr snjónum, velta upp kögglum, byggja snjóhús og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Ég á einhvers staðar í hugskotinu mynd af heilmiklu virki, byggðu úr snjó. En, nei, ég sit við tölvuna mína og reyni að vinna og hef bara áhyggjur af því hvort það verði orðið ófært fyrir minn litla bíl þegar ég fer af stað heim.

  Þórdís hefur horn í síðu jeppamanna og ég er henni hjartanlega sammála. Ég átti einu sinni jeppa, ekki svona ferlíki eins og núna viðgengst, heldur bara þokkalegan bíl sem kom manni á áfangastað þótt færðin væri slæm. Ég bjó þá á Norðfirði og vann inni í sveit, þannig að jeppi var nauðsyn. En í Reykjavík er það ekki snjórinn sem heftir för, heldur bílar sem sitja fastir hingað og þangað. Jepparnir komast ekkert lengra en hinir við þær aðstæður og þessir fáu dagar á ári sem þannig viðrar, réttlæta ekki þessa jeppaeign. OG HANA NÚ !!

  janúar 12, 2004

  Björninn hringdi í mig áðan og sagði: "Hæ, hver er þriðja rótin af einum ?" Ég sagði honum það og spurði af hverju hann vildi vita það. "Af því bara", var svarið - svo annað hvort veit enginn þetta í Vestmannaeyjum eða að hann var að læra stærðfræði !

  Dagurinn annars búinn að vera rólegur, hreinsaði með aðstoð bóndans út úr herbergi Bjarnarins - byrjaði að undirbúa málningu, en vantaði sandpappír til að geta klárað að pússa gluggapósta. Kaupi það sem mig vantar á morgun og helli mér svo í þetta.

  Það snjóar úti og spáir bara vetrarveðri næstu daga. Tilbreyting að því. Ég er alltaf svo glöð þegar veðrið er í takt við árstíðina. Frost og snjór á vetrum en sól og hlýindi á sumrum.

  This page is powered by Blogger. Isn't yours?