<$BlogRSDURL$>

febrúar 14, 2004

Einhver brögð hafa verið að því að áhugasamir hafi ekki getað opnað kommentin mín. Ég var að gera einhverjar tilraunir með javascript, tilraunin mistáokst og ég hreinsaði ekki alveg allt út aftur. Núna er ég búin að því. Ef kommentakerfið virkar ekki bið ég kunnuga að láta mig vita eftir öðrum leiðum.

Bóndinn fór til jarðarfarar góðrar konu hérna úr sveitinni sem lést alltof snemma. Þó tæknin við hjartaaðgerðir sé orðin mikil og góð, ræður hún ekki við allt. Ég treysti mér ekki, þarf helst að vera annað hvort lárétt eða lóðrétt - en er annars að jafna mig.

Vorblíðan heldur áfram - snjórinn nánast horfinn og meira að segja svellin, sem sitja jafnlengi og leiðinlegustu veislugestir, eru farin að láta sig.

Best að fara út að ganga smástund í tilefni af því.

febrúar 13, 2004

Föstudagurinn þrettándi - ég veit um einn sem tekur enga sénsa á svona dögum og liggur grafkyrr heima í rúmi allan daginn. Ég er búin að vera heima í dag, en ekki vegna dagsins, heldur skv. læknisráði.

Björninn minn var í eftirliti hjá lækni og fékk góða dóma, aðgerðin virðist hafa tekist vel. Vona að þolinmæðin sé með betra móti hjá honum - ekki gaman að vera í gifsi svona lengi.

Rétt í þessu heyrði ég svo viðtal við Ágúst "gamla" Ármann - einn elsta poppara Íslands, en hann ásamt BRJÁN (BlúsRokkJassÁNesi) verða með show á Broadway í kvöld. Þangað fjölmenna austfirðingar á öllum aldri og hitta mann og annan. Örugglega gaman hjá þeim. Við urðum að afþakka gott boð á þorrablót í Skriðdal - allt saman mér (aumingjanum) að kenna. Vona samt að ég verði ekki látin gjalda þess.


febrúar 12, 2004

Þetta er bara eins og í lygasögu. Lík finnst við netagerðarbryggjuna, lítur út fyrir morð !!
Og þetta gerist í minni gömlu heimabyggð - ja, heimur versnandi fer. Verstu málin hér í den voru þegar menn slógust á böllum, brutust inn í Óskarssjoppu og stálu sígarettum og fóru í nætursund í sundlauginni.

Hef verið heima í dag að jafna mig eftir smávægilega rannsókn. Sé til í fyrramálið hvort ég mæti í vinnuna, en hallast nú að því að mæta ekki fyrr en eftir helgi.

Snjórinn sem kom í síðustu viku er eiginlega alveg horfinn og í hlaðinu jaðrar við aurbleytu.

Ég er orðin svo leið á endalausum villum hjá enetation kommentakerfinu að hér með er það sett út í kuldann !
Haloscan fær séns - þrátt fyrir að hafa brugðist mér algerlega þegar ég var að byrja í þessu bloggi fyrir tæpu ári síðan.

febrúar 10, 2004

Gleðikvennasíðan var uppfærð áðan !

Ég fór á googlism-slóðina áðan og sló inn nafnið mitt: Aðeins ein lína birtist:

Þórunn is working

og það er alveg satt !!

Annars er ég að fara á Norðfjörð á eftir, þarf aðeins að láta athuga "minn innri mann". Ég vona að ég reynist ekki illa innrætt, en hvað veit maður !

Við erum að gjörnýta heilbrigðiskerfið þessa dagana, ég og mín fjölskylda.


febrúar 09, 2004

Það var dálítið erfitt að koma sér á fætur í morgun. Ég vaknaði reyndar um sjöleytið en skreið upp í aftur - engin ástæða til að fara af stað í vinnu fyrr en um hálfníu eins og venjulega. Veðrið ágætt, kalt, stillt og bjart. Svo steinsofnaði ég og langaði ekkert að vakna þegar klukkan hringdi.
Á leiðinni í vinnuna voru nokkrir skaflar sem búið var að stinga í gegnum, en varla nema ein og hálf breidd. Á leið í gegnum einn slíkan munaði engu að ég yrði keyrð í klessu ! Einhver djöfulsins vitleysingur á stórum jeppa þrusaði í gegn á fullri ferð á miðjum veginum. Ég skellti mínum litla hvíta bíl út í skaflinn við hliðina frekar en að fá ferlíkið á mig - slapp með skrekkinn, en þurfti að bakka út úr skaflinum í nokkrum atrennum. Verð að segja að ég er bara mjög ánægð með "dósina" mína - hún er ekki svo galin í ófærðinni.
En ökumaður jeppans - sá á ekki von á góðu ef ég kemst einhvern tíma að því hver hann er - og ég vona heitt og innilega að hann hafi ekki getað talað fyrir hiksta í allan morgun !!

febrúar 08, 2004

Jæja, þá er ég komin heim aftur. Hér er töluverður snjór, samt ekki eins mikill og ég átti von á, ruðningarnir á Egilsstöðum samt töluverðir. Ég beið í tæpan sólahring eftir að komast austur, átti flug um hádegi í gær og komst loks af stað í morgun - mæting á Reykjavíkurflugvöll klukkan rúmlega 10.

Það er 15 stiga frost og snjótittlingarnir farnir að laumast inn um gluggana til að hlýja sér - mikið skil ég þá vel.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?