<$BlogRSDURL$>

mars 06, 2004

Þá erum við hjónakornin komin aftur heim frá Akureyri - á spánýjum bíl, aðeins dekkri en þeim sem myndin er af hér fyrir neðan. Verður að segjast eins og er hann lofar mjög góðu.

Ferðin varð viðburðarík og tilviljanir ýmsar urðu til þess að í stað þess að fara fram og til baka samdægurs, ákváðum við að gista á Hótel KEA - fengum tilboð sem við gátum ekki hafnað.
Eftir að hafa keyrt norður og gengið frá bílaskiptum og kvatt litla hvíta bílinn, fórum við út á Dalvík og hittum þar fyrir mág minn og fjölskyldu hans - þrír krakkar á aldrinum 1- 10 - skemmtilegur hópur.
Við fórum svo aftur inn á Akureyri, kíktum aðeins í búðir og fórum svo á KEA.

Við fengum okkur að borða á La vita eBella, ágætis matur þarna, heimagert pasta og allt. Greinilega vinsæll staður, því allt fylltist út úr dyrum um það leyti sem við vorum að klára matinn. Við ákváðum því að fara og fá okkur kaffi og koníak á KEA. Þar var mikið af frægu fólki saman komið. Ekki ómerkara lið en Bónusfeðgar, iðnaðarráðherra, alþingismaður að austan, gömul handboltahetja, þekkt andlit af sjónvarpsstöðvunum o.s.frv. Það var alveg óborganlegt að sjá Valgerði sitja milli Þorsteins Samherja Vilhelmssonar og Jóns Ásgeirs Bónusgríss - ætli hann Davíð viti af þessu ? Verður ekki Valla vinkona bara látin fara heim í Lómatjörn þegar Dóri verður ráðherra - ja, maður spyr sig !

Um miðnættið ákváðum við að kíkja á Græna hattinn - í kjallara hússins þar sem Klæðaverslun Sigurðar Guðmundssonar var lengi til húsa - heitir húsið ekki annars París ?

Við vorum ekki búin að vera nema smástund íhattinum þegar allt HOTSHOT-liðið var komið þangað líka.

Þetta var reyndar bara mjög gaman - en tvö atriði stungu aðeins: Sjallinn var lokaður vegna árshátíðar VMA og morgunverðarsalur Hótel KEA er á Teríunni.


mars 04, 2004

Ég ætla að fara norður á Akureyri á morgun og skipta um bíl.
Sá nýi er einhvern veginn svona:


Haldiðiaðaséuflottheitáessuliði !

mars 02, 2004

Systurdóttir mín - hún Sigurlaug - var í dansskóla og mamma hennar tók mynd af henni við það tækifæri.

Ég held að Bjarni vinur minn Sigurðsson sé kominn á mótþróaskeiðið. Ekki bara hefur hann látið bloggsíðu sína óhreyfða vikum samn, heldur er hann núna búinn að EYÐA henni og heimasíðan hans er bara HTTP 404 File not found !

Skyldi þetta standa í nokkru sambandi við setninguna sem hefur heilsað mér á efst blogginu hans alveg síðan égveitekkihvenæríósköpunum - nefnilega:

Laug forsætisráðherrann að þjóðinni ??

Bláa höndin kannski ?

Bjarni minn - ég er alveg til í að setja linkana inn á þig aftur ef og þegar þú sleppur úr greipum blámans.

mars 01, 2004

1. mars 1989 - fyrir réttum fimmtán árum - var bjór lögleiddur á Íslandi eftir langa mæðu og miklar umræður. Ég var á þessum tíma búsett í Neskaupstað, bóndinn á sjó, ég bundin yfir börnum og erfitt um vik að taka þátt í þeirri alls herjar öldrykkju sem landinn lagði í þennan dag. Enda var bjórinn mér ekki svo mikið nýnæmi - bóndinn var á ísfisktogara sem sigldi reglulega til Englands eða Þýskalands og sjómenn máttu taka með sér bjór heim ! Það voru nefnilega sumir rétthærri gagnvart þessum lögum eins og löngum hefur viðgengist hér á landi.
Allir eru jafnir fyrir lögunum, en sumir eru jafnari en aðrir - svona rétt eins og í Animal Farm.
Á þessum tímamótum var Gleðikvennafélag Vallahrepps stofnað, svo mikið er á hreinu. Og við ætlum að halda upp á afmælið áður en langt um líður.

Í dag ákvað ég að selja litla hvíta bílinn minn, dósina, drusluna, púdduna eins og sumir hafa stundum misst út úr sér við hin ýmsu tækifæri. Merkilegt að í samhenginu: "Mamma, má ég fá x lánaðan ?" hefur x yfirleitt staðið fyrir "bílinn þinn" en ekkert af hinum ljótu uppnefnunum. Í stað hans kemur bíll sem ég hef enn ekki séð. Hann er nýrri, stærri og fullkomnari en ekki eins hvítur - hvenær formleg skipti verða framkvæmd skýrist vonandi á morgun.

Í dag fékk ég tölvupóst sem yljaði mér um hjartaræturnar. Efni bréfsins var að fá leyfi hjá mér til að birta ljóð, sem ég samdi fyrir allmörgum árum, í tímariti sem kemur út eftir 2-3 vikur. Ég gaf auðvitað leyfi fyrir birtingunni og svo kemur bara í ljós hvernig þetta kemur út.

Björninn minn hringdi í mig í dag, nýkominn úr röntgen og með nýtt gifs á handleggnum, sem hann þarf að hafa í 4 vikur. Þetta gifs hefur samt einn stóran kost: Það er með hjörum og hægt að taka það af sér af og til og smella á aftur. Hann tilkynnti mér að hann væri á leið í STURTU. Mikið skil ég hann vel !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?