<$BlogRSDURL$>

mars 12, 2004

Dularfullur, skeleggur hefur verið að tjá sig á kommentakerfinu mínu undanfarið. Af því sem þar hefur komið fram sýnist mér augljóst að hann þekkir til fjölskyldu bónda míns, sem um langt árabil bjó í Stangarási á Völlum. Hann virðist þrífast best í skjóli nafnleyndar og verður því hér eftir nefndur Óskar (sbr. Óskar Nafnleyndar). Ég mun þó ekki linna látum fyrr en ég kemst að raun hver sá er !

mars 11, 2004

Ég nefndi það um daginn að ljóð eftir mig yrði birt í tímarit núna á næstunni. Áðan fékk ég svo tölvupóst þess efnis að það hefði verið sett út af borðinu í lokafrágangi vegna plássleysis. Þannig fór nú það. Ég birti það bara hérna í staðinn.

Vetur í skógi

Geng ég í skóginn á góðum degi.
Vetur er yfir, vötn eru frosin.
Kátur fossinn í klakaböndum.

För eftir dýr og fugla í snjónum.
Minkur smýgur meðfram læknum,
læðist um í leit að æti.

Rjúpnaslóð í rjóður liggur.
Mynstur líkt og menn hafi teiknað.
Listaverk gert af liprum fótum.

Nakið birkið í nepjunni stendur.
Gamlar eikur greinamiklar.
Leyndarmál geyma frá langri ævi.

Heiðgulir standa humlar á víði.
Segja mér að senn komi vorið.
Vaknar þá skógur af vetrardvala.


Ég verð ein heima næstu þrjá dagana - björninn í Eyjum, bóndinn og frumburðurinn flugu suður í morgun. Nú er bara spurningin hvað ég á að nota dagana í. Badminton eftir vinnu að sjálfsögðu, verð að halda mér í æfingu. Mjallhvít var nærri búin að vinna mig síðast og það vil ég ekki að gerist. Þarf reyndar að byrja að undirbúa námskeið, best að byrja á því í kvöld. Það er svo gott að vera búin að lesa sér til tímanlega, hugsa og planleggja í smátíma og vaða svo í að skrifa.
Ég fer auðvitað út að borða með Gleðikvennafélaginu annað kvöld, en að öðru leyti er ekkert skipulagt.
Ég gæti samt hugsað mér góðan göngutúr í skóginum, kannski upp í fjall, ef vindinn lægir aðeins; sund, góðan sprett og liggja svo í nuddpottinum dágóða stund á eftir; elda mér eitthvað gott og borða það meðan ég horfi á hæfilega væmna bíómynd - glas af rauðvíni innan seilingar; og svona gæti ég haldið áfram. Það er nú samt þannig með mig að mér gengur frekar illa að standa við góð áform.
"Vegurinn til glötunar er varðaður góður áformum" - segir einhvers staðar.mars 10, 2004

Það er einkennilegt hvernig atburðir og tímasetnigar þeirra raðast upp. Stundum koma tímabil þar sem ekkert skemmtilegt er á döfinni og reyndar ekki margt leiðinlegt heldur.
Núna sé ég hins vegar fram á tímabil mikilla anna, með fundarhöldum, námskeiðshaldi með tilheyrandi undirbúningi, þátttöku í skemmtanalífi langt fram yfir það sem venjulegt er, auk þess að stunda mína venjulegu vinnu og vera húsmóðir í pínulitlu hlutastarfi. Næstu þrjár vikur verða klikkaðar.
Kannski ég reyni að kría mér út frí í dymbilvikunni - björninn minn verður heima um páskana og þarf sjálfsagt að nöldra pínupons í mömmu sinni.

mars 08, 2004

Okkur var boðið á leiksýningu í gærkvöldi - Sveinsstykki Arnars Jónssonar. Mikið rosalega er maðurinn góður leikari !!
Og Þorvaldur Þorsteinsson er ekkert minna en snillingur - að skrifa einleik þar sem sögð er saga manns frá barnæsku og fram á fullorðinsár.
Einn maður með nokkra pappakassa, stól og borð og eina möppu skuli fá mann til að hlæja og gráta til skiptis heilt kvöld !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?