<$BlogRSDURL$>

mars 26, 2004

Heimsfrægðin lætur ekki á sér standa. Ég er boðin í Bessastaði annað kvöld - ásamt bóndanum auðvitað. Tilefnið, ja kannski ekki rétt að ljóstra því upp alveg strax.
Það skal þó tekið fram að þessar tvær vísbendingar um væntanlega heimsfrægð eru á engan hátt tengdar.
Það er svo brjálað að gera í menningu og skemmtanalífi þessa helgi að það verður örugglega verkefni mánudags og þriðjudags að jafna sig eftir herlegheitin. Auk Bessastaðaboðsins er flutningur á Jóhannesarpassíunni í Egilsstaðakirkju á morgun og Elling verður sýndur á Eiðum annað kvöld og á sunnudaginn. Ofan á þetta bætist svo að ég þarf að kenna frá 9-3 á morgun.
Ég ætla í Bessastaði. Það gerist bara einu sinni að Ester verður fimmtug og stutt að fara í Fljótsdalinn.
Ég ætla að gera hvað ég get til að komast á passíutónleikana, er samt ekki ljóst enn hvort það gengur.
Og svo bíð ég spennt eftir þriðju vísbendingunni......... um heimsfrægð á Fróni.

Björninn minn hringdi og sagði að það væri tilvitnun í bloggið mitt í Mogganum í dag. Ætli þetta endi með nokkru öðru en heimsfrægð á Íslandi !

mars 25, 2004

Bóndinn er að kenna á námskeiði suður á landi - grisjun.
Ég var að líka að kenna á námskeiði í dag - hjá Fræðsluneti Austurlands. Og hvað - spyr kannski einhver - varstu að kenna ?
Grunnatriði skjalastjórnunar og notkun staðla og hugbúnaðar í því samhengi ... eða eitthvað í þá áttina. Ég veit - þetta hljómar ekki mjög spennandi en hvað með það. Ég var dálítið stressuð, hef aldrei kennt þetta áður. Gekk samt ágætlega - held ég. Á laugardaginn þarf ég svo að kenna á Publisher-námskeiði. Ég hef aldrei kennt það heldur, en hvahh - þetta reddast !

Skrítið - það er eins og maður lendi alltaf í þessari kennslu aftur og aftur. Ég held að það sé erfiðara að venja sig af kennslu en að venja sig af því að reykja. Ég reykti í skrrratti mörg ár, með hléum, reyndar. Var alltaf að hætta og springa á limminu eftir misjafnlega langan tíma. Ég er búin að vera að kenna í skrrratti mörg ár líka og þrátt fyrir að ég sé "hætt" að kenna, lendi ég í þessu aftur og aftur og aftur. Eru nokkuð til svona "teacher anonymus" ?

Var við jarðarför í dag. Fjölmenni, veðrið fallegt, athöfnin falleg.

Svona dagar kenna manni að meta meir það sem manni hefur hlotnast - þessa hluti sem eru svo hverdagslegir að manni hættir til að taka þá sem sjálfsagða.

Megi nóttin verða ykkur svefnsöm og góð.

mars 22, 2004

Þegar eldri sonur minn byrjaði í barnaskóla hér á Hallormsstað, sex ára pjakkur, var í bekknum líflegur, sprettharður, rauðhærður drengur. Þegar sonur minn kom svo aftur í skólann á Hallormsstað, eftir fjögurra ára búsetu fjölskyldunnar í Neskaupstað, var hópurinn mikið til óbreyttur og áðurnefndur drengur varð aftur bekkjarfélagi hans. Þessi bekkur, sem samanstóð af 9 krökkum, var sá fyrsti sem lauk samræmdu prófunum frá Hallormsstaðaskóla. Þetta var samheldinn og góður hópur, þó einstaklingarnir væru skemmtilega ólíkir.
Í dag eru þau dreifð vítt og breitt í vinnu eða námi, sum hér á Héraði, önnur í Reykjavík og enn önnur búsett erlendis.
Öll, nema rauðhærði strákurinn, hann Árni, sem við munum fylgja til grafar á miðvikudaginn.

mars 21, 2004

Sigurlaug, systurdóttir mín, er skynsöm stúlka. Hún er að verða 6 ára núna í maí og er greinilega með athyglisgáfu og rökhugsun í góðu lagi. Í dag, þegar þær frænkur voru búnar að vera úti að leika sér dágóða stund og komu inn að fá sér að borða, datt upp úr þeirri stuttu: "Tóta, er nokkur Tarsan í þínum skógi ?" Mér skilst að hún hafi verið að horfa á einhverja mynd um Tarsan nýlega og fundist hann algert æði !

Ég sagði sem var að það væri enginn Tarsan í mínum skógi, nema ef vera skyldi bóndi minn. En það passar víst ekki því þá væri ég Jane, eða hvað !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?