<$BlogRSDURL$>

apríl 23, 2004

Norðfjarðarferðin var söguleg. Það sprakk dekk á Fagradalnum og við þurftum að keyra á varadekkinu fram og til baka, hámarkshraði 80 km. Ekkert skemmtilegt.
En það var gaman á Kirkjumelnum, allt fullt af fólki á ýmsum aldri - kaffi og kökur - spjall og skemmtilegheit. Börnin settu upp leikþátt - auðvitað frumsaminn - sungu og sýndu listir sínar. Yngsta daman, langömmubarn foreldra minna, var of lítil til að leika alvöru hlutverk, og tilraunir til að láta hana leika hlut í hillu (eða bara súkkulaði) , fóru út um þúfur þar sem hlutir færast ekki úr stað af sjálfsdáðum.

Bóndinn fór í morgun norður í land að kenna norðlenskum skógarbændum að grisja og hirða um skóga sína. Ég verð því alein í kotinu þar til seint annað kvöld.

Sit annars í vinnunni við að forrita í Visual Basic - bara nokkuð skemmtilegt.

apríl 22, 2004

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn !

Gestur nr. 10000 kvittaði ekki fyrir komu sinni og verður því af verðlaununum.

Móðir mín á afmæli í dag og meiningin að renna í kaffi á Kirkjumelinn síðdegis. Veit svo sem ekki hvort hún verður heima, en það kemur bara í ljós. Það er einhvern veginn þannig að sumardagurinn fyrsti og afmæli mömmu eru óaðskiljanleg í mínum huga - mér finnst hún eiginlega eiga afmæli sumardaginn fyrsta, sama upp á hvaða dag hann ber.

Frumburðurinn fór snemma á fætur í morgun, þrátt fyrir fríið - eða kannski þess vegna - og lagði keikur af stað í ferðalag sitt út í bláinn. Hef grun um að "bláinn" sé á Akureyri eða Dalvík, en það kemur í ljós síðar.

Björninn og unnusta hans, Eyjastúlkan, eru bæði búin að ráða sig í vinnu hér fyrir austan í sumar, hann hjá stóru verktakafyrirtæki, hún á hóteli. Reikna með að þau búi hérna hjá okkur, enda veitir þeim ekki af að safna í sjóð til vetrarins. Það er því fjölmennt og fjörugt sumar framundan. Vonandi líka sólríkt og hlýtt.

apríl 21, 2004

Og þar sem teljarinn minn er að nálgast 10000, sá sem fær þá tölu er vinsamlegast beðinn að kvitta.

Þetta er frekar venjulegur dagur, enn sem komið er. Það eina sem ég hef gert, sem ekki telst hversdagslegt, er að afþakka ferð til Sacramento í Californíu. Að öðru leyti er allt bara nokkuð normal.

apríl 20, 2004

Það rignir - hellirignir - og það er rok líka. Ég held ég drífi mig heim og undir sæng um leið og ég er búin að vinna.
Búið að aflýsa/fresta námskeiðinu á Hornafirði, vegna ónógrar þátttöku og veikindaforfalla - fegin er ég. Held ég hefði varla meikað að keyra á Höfn, kenna 4 tíma og keyra síðan heim aftur. Ég fæ hóstakast ef ég reyni að segja nokkur orð, hvað þá að tala í marga klukkutíma.
Við vinnufélagarnir ætlum að taka þátt í spurningakeppni fyrirtækja sem haldin verður hér á svæðinu á næstunni. Ég er búin að lýsa því yfir að þar sem ég hafi samið spurningarnar fyrir tvær síðustu keppnir, sé búið að spyrja um allt sem ég veit og því sé ég vonlaus keppandi.
Er samt næstum viss um að verða skipuð í liðið.

apríl 18, 2004

Loksins virðast sýklalyfin vera farin að virka. Ég held næstum að ég fari í vinnu á morgun, verð eiginlega að gera það, er með bókað námskeið á Hornafirði á miðvikudag og ekki seinna vænna að gera sig klára fyrir það. Það var ekki alveg búið að staðfesta hvort næg þátttaka yrði, en eitt er víst, ef ég undirbý mig ekki, detta nógu margir inn til að það verði haldið.

Better safe than sorry ....

Svo er spennandi að fylgjast með Múlakvíslinni - hvað er að gerast þar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?