<$BlogRSDURL$>

maí 01, 2004

Ljósmyndir Björns Björnssonar 

Þeir sem þekkja til á Norðfirði - eða kannski þekktu til þar á síðustu öld - kannast við Bjössa á Bakka og verslunina hans, þar sem allt mögulegt var selt yfir búðarborðið, hveiti, gúmmístígvel og plastskálar í sömu hillunni.
En Björn Björnsson eldri (á Bakka) var líka ljósmyndari og nú nýverið hafa afkomendur/ættingjar hans opnað heimasíðu þar sem hægt er að skoða hluta af myndasafni hans. Ég varð stórhrifin - en kannski er ástæðan bara sú að gamlar minningar skutu upp kollinum. En ég hvet ykkur til að skoða þessar myndir og hafa í hug hvers konar tæki menn voru með í höndunum á þessum árum og gátu samt náð svona myndum.

apríl 30, 2004

Timeline ... 

Er að lesa bókina "Timeline" eftir Michael Crighton. Hann er seigur í að búa til plott og ég held að hann hafi verið að skrifa kvikmyndahandrit í leiðinni, enda er myndin komin í bíóin. Planið hjá mér er að klára bókina og fara svo að sjá myndina áður en langt um líður.

apríl 29, 2004

Týndu hlekkirnir 

Ég hef verið að tína inn týndu hlekkina. Örugglega gleymi ég einhverjum, en þið verið þá bara að minna mig á.

Vornótt 

Vorvindurinn
ýtir föðurlega
við trjánum.
Bráðum kemur vorið !

Þrestirnir
syngja hástöfum,
skortir alla tillitssemi
við sofandi skóg.
Svona, vaknið, vorið er komið !

Björkin
vaggar sér í vindinum,
ypptir greinum.
Veit sem er að ekkert liggur á.


Andvökunætur eru ekki alslæmar - svona á vorin.

apríl 28, 2004

Ég er klaufi !! 

Í gærkvöldi ætlaði ég að laga til í tenglunum mínum á blogginu. Og hvað haldið þið ! Ég eyddi helmingnum af templatinu - þar með teljaranum, flestum tenglum og ýmsu slíku. Þess vegna er ég búin að gera þessa útlitsbreytingu á blogginu mínu og ég lofa ykkur einu: Henni er ekki lokið !

apríl 27, 2004

Moldin rýkur ... 

Moldviðri er þyrlað upp til að fela alvarlegri hluti.
Er það kannski raunin núna ?
Er ríkisstjórnin að slá ryki í augu fjölmiðla og þar með almennings með fjölmiðlafrumvarpinu?
Hefur einhver athugað hvaða mál önnur eru til afgreiðslu á hinu háa Alþingi á þessu vorþingi ?
Það er auðvitað þjóðráð að koma fram með svona mál ef þú vilt yfirfylla fréttatíma og raunar dagskrá fjölmiðlanna og koma þar með í veg fyrir umfjöllun um annað.
DO virðist vera að skemmta sér við að henda kínverjum inn í hundahóp - hvað eftir annað - og hundarnir hoppa og skrækja - alveg ins og DO ætlast til. Þeir gleyma líka alveg að fylgjast með öllu öðru á meðan. Og svo mætir HÁ í sjónvarpið til að taka við skömmunum fyrir prakkarastrikin !!

Halló !! Er í lagi með þetta lið !!

Mér er spurn: 

Spurningakeppni fyrirtækja var í gærkvöldi, fyrsta umferð. Við lentum á móti liði frá Hótel Héraði og unnum 10:5. Önnur umferð byrjar á fimmtudag. Vitum ekki enn hverjir andstæðingarnir verða, en höfum svo sem ekki stórar áhyggjur af því.

apríl 25, 2004

Að vera eða ekki vera -- blogger 

Ég er að átta mig á því að þessi skrif hér eru hin mesta vitleysa. Ég skrifa um hitt og þetta sem á dagana drífur, hinir og þessir lesa, fjölskyldan, vinir, kunningjar, og fólk sem ég þekki ekki baun. Það er í sjálfu sér allt í lagi, það sem er neikvætt er að þeir sem áður hringdu til að spjalla, nú eða kíktu í kaffi, kíkja núna á bloggið mitt og sjá hvað ég hef haft fyrir stafni.

Þetta fólk skilur yfirleitt ekki eftir nein skilaboð, þannig að ég fæ engar fréttir á móti. Niðurstaðan er sú að allir vita allt um mig en ég veit ekkert um hina, nema þessa örfáu sem blogga.

Hvað er til ráða ?
a) skrifa alfarið um eitthvað sem ekki er persónulegs eðlis
b) loka þessari síðu og búa til nýja undir dulnefni og fara að blogga "anonymus"
c) hætta að blogga

Maður spyr sig !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?