<$BlogRSDURL$>

maí 15, 2004

Ferðaundirbúningur og Eurovision 

Þá er Eurovisiondagurinn runninn upp og bendir allt til að ég sitji ein heima og horfi á keppnina. Bóndinn er að fara til Sacramento í Kaliforníu á nokkurra daga ráðstefnu og þarf að fljúga suður í dag, því þrátt fyrir margar flugferðir á dag milli Egilsstaða og Reykjavíkur er fyrsta vél á sunnudögum ekki fyrr en um hádegi og það er óþægilega stuttur tími til að vera að fara í loftið frá Keflavík um hálffimm.
Frumburðurinn ætlar í partý hjá vinnufélaga sínum, eftir því sem mér skilst.
Nanna var að segja mér að ég sé óhæf til að leggja orð í belg um fjölmiðlafrumvarpið og segir mér að ég sé vanhæf vegna þess að eiginmaður vinkonu minnar er hátt settur í Norðurljósum. Ég verð að játa að ég versla líka stundum í Bónus. Og frændi minn vinnur hjá Baugi.
Ég er hins vegar ekki með Stöð 2, les aldrei DV og Fréttablaðið sjaldan - aðallega vegna þeirrar reynslu minnar að fæst af því sem í þessum blöðum stendur, er áhugavert, margt afbakaður sannleikur og enn annað hrein og klár lýgi.
Ég er þeirrar skoðunar að ÓRG ætti að neita að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið, ef það verður að lögum, þó ekki væri nema til að láta reyna á málskotsrétt forseta.
Kjörið tækifæri, forsetakosningar framundan, þannig að kostnaðurinn yrði hverfandi, lögspekingar yrðu að koma sér saman um hvernig túlka beri þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og setja jafnvel lög sem skilgreina þetta ferli nánar.
En - aftur að deginum - ef einhvern vantar félagsskap í Eurovision-gláp ..................

maí 14, 2004

Brúðkaup og afmæli 

Ég skil núna af hverju Ólafur Ragnar hætti við að mæta í brúðkaupið hjá Danaprinsi. Hann á afmæli í dag og það er þekkt fyrirbrigði að sumum er illa við að aðrir atburðir skyggi á afmælisdag þeirra. Ef þeir eiga afmæli er það aðalatriðið !

Fjölmiðlafrumvarpið hefur aldeilis tekið sinn tíma umræðunni undanfarið. Ég hef ekki kynnt mér fjölmiðlafrumvarpið neitt sérstaklega, en held samt að reglur um rekstur og eignarhald geti verið nauðsynlegar. Hins vegar finnst mér aðferðin núna heldur klén, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Ég sakna meiri umfjöllunar um embættisfærslur Björns Bjarnasonar !

Ég sakna líka meiri umræðu um þá staðreynd að ríkisstjórn þessa lands hefur gert okkur samsek um pyntingar, brot á Genfarsáttmálanum og fleira miður geðslegt. Alþingi fékk ekki að segja sitt álit á þeirri ákvörðun og því tel ég að þeir sem hana tóku verði að segja af sér !

Ég vil að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar segi af sér vegna þessara mála !


maí 12, 2004

Meira af fuglum 

Í skóginum þar sem ég bý er mikið fuglalíf. Hrossagaukurinn er sá sem hvað mest er áberandi á þessum tíma. Snemma á morgnana stillir hann sé upp fyrir neðan svefnherbergisgluggann hjá mér og hefur upp raust sína, kvakar hátt og snjallt. Fyrst á vorin hrekkur maður upp með andfælum og verður arfafúll út í greyið, en svo venst maður hljóðunum og þau trufla mann ekki neitt. Svo fer maður að sakna hans þeagr kemur fram á haustið.

Í kuldakastinu núna um daginn voru þónokkrir hrossagaukar sem héldu til undir húsveggnum hjá mér og vinsælasti staðurinn var þar sem skólplögnin liggur, sennilega einhver ylur þar. Skemmtilegur fugl hrossagaukurinn og mér finnst að Írar og fleiri Evrópubúar ættu að skammast sín fyrir að skjóta og éta þessi grey.

Svei attan !!

maí 11, 2004

Tilraun til að blogga með tölvupósti ! 

Það er svo gaman að fikta í svona nýju dóti ! Og þetta er frábært - geta sent inn á síðuna með tölvupósti !

Nýtt kommentakerfi á Blogger ! 

Best að prófa þetta - en hef samt Haloscan virkt áfram.

Er vorið komið ? 

Vonandi ! Ég sá a.m.k. mörg merki þess á leið minni til vinnu í morgun.
Verktakarnir sem eru að búa til götu á Hallormsstað eru búnir að spæna upp for í miklu magni og dreifa henni á leiðina niður götuna og reyndar hluta af þjóðveginum líka..
Vegagerðarmenn eru að moka burtu grjóti úr Dýásnum - þar sem sprengt var fyrir stuttu. Sennilega verður Bergsbeygjan horfin eftir nokkrar vikur.
Á Stangarási er komið myndarlegt indíánatjald milli lerkitrjánna og greinilegt að börnin sem þar eiga heima sjá fram á gott sumar.
Maríuerlan er á fullu að útbúa sér hreiður undir þakskegginu hjá nágrönnum mínum - og fær í þetta skiptið góðan frið, þar sem íbúarnir eru ekki heima.

Fyrir nokkrum árum tók ég eftir því að Maríuerla, sem kom oft að eldhúsglugganum hjá mér og stundum reyndar inn, vantaði tærnar á annan fótinn. Hún kom svo aftur a.m.k. tvö ár eftir þetta og veiddi flugur af mikilli fimi. Hún kom líka óhikað inn um eldhúsgluggann hjá mér og náði í fiskiflugur þar, ef svo bar undir. Ætli það séu ekki afkomendur hennar sem núna byggja sér hreiður á sama stað og forfeðurnir - kæmi mér ekki á óvart.

maí 10, 2004

Andlitslyfting á Blogger 

Kom að því að Blogger fengi aðeins nútímalegra andlit. Lítur vel út, bara spurning hvort virknin er eins góð !

maí 09, 2004

Myndir af krílinu ! 

Hér er hægt að sjá myndir af litla snáðanum þeirra Hálfdans og Erlu !

Sé ekki betur en að hann sé með augun hans pabba síns.

Það er allt að gerast.... 

hérna á Héraðinu.
Í gær var verið að opna nýju verslunarmiðstöðina og þar var verið að kynna úrslit í samkeppni um miðbæjarskipulag á Egilsstöðum. Menn eru nefnilega að átta sig á því að á stað eins og Egilsstöðum, dugir ekki að vera með fyrirtækin í holum, afkimum og bílskúrum út um allan bæ. Það verður að koma upp einhvers konar miðbæ, þar sem þjónustan er sýnileg öllum, kunnugum og ókunnugum. Ég veit ekki hve oft ég hef lent í að útskýra fyrir ferðamönnum hvar einhverja þjónustu er að finna í þessum litla bæ.
Ótrúlega flóknar útskýringar oft. Vonandi bera menn gæfu til að nýta það besta úr þessum tillögum og koma því í verk.

Og hér rétt hjá eru verktakar að breyta litla göngustígnum, sem við höfum kallað Sissustíg, Stefaníustíg eða jafnvel StefaníuBoulevard (í einhverju mikilmennskukast ónefnds aðila) í íbúðagötu sem heitir á skipulaginu Réttarkambur.
Þannig að þeir sem eiga þá ósk heitasta að eignast hús í Hallormsstaðaskógi - núna er tækifærið að fá lóð og byrja að byggja !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?