<$BlogRSDURL$>

maí 22, 2004

Erfiðar ákvarðanir  

Ég er að reyna að taka ákvörðun um hvað ég á að taka mér fyrir hendur í dag. Það er nærri 20 stiga hiti, sólskin en dálítið hvasst, svo ég ætla ekki að vera inni að taka til. Gæti komið til greina að þvo bílinn, ekki síst vegna þess að það er búið að hreinsa moldarhrúgurnar eftir verktakana af götunni. Gæti einnig komið til greina að þvo þvott, þar sem brakandi þurrkur er úti. Óþarflega hvasst til að fara upp í fjall, en allt í lagi með skógargöngu. Alltaf skjól í skóginum !
Þetta er allt of erfitt - fer bara út á pall og hugsa málið ..........

maí 20, 2004

Mér finnst endilega vera sunnudagur. 

En svo er bara einn vinnudagur og síðan aftur helgi. Þetta ætti reyndar að vera svona oftar.

Björninn minn kom heim í gær og ég og synir mínir tókum til við skipulagsbreytingar. Einu rúmi var fleygt, annað flutt milli herbergja og sófi borinn út á pall og síðan inn í herbergi. Mikið djöfull er gott að eiga öfluga syni í svona tilfellum.

Við Björninn skruppum svo á Norðfjörð í afmæli Sigurlaugar. Komum aðeins við hjá Einari bróður mínum. Þar voru tvær frænkur mínar, 7 og 9 ára að gera tilraunir með að brenna göt á moggann með stækkunargleri. Þær fengu Björninn til að hjálpa sér og komu síðan inn alsælar með brunagötóttan Moggann. Tilraunin hafði sem sagt tekist. Á heimleiðinni sagði Björninn mér svo kímileitur frá aðförunum. Dregið hafði fyrir sólu rétt þegar var að byrja að rjúka og stefndi í óefni. Þá hafði sú yngri sagst kunna ráð og byrjað að syngja: "Sól, sól, skín á mig !" Og viti menn ! Sólin kom aftur fram undan skýjunum og götunin hófst. Þá sagði sú stutta (nafna mín): "Þetta virkar alltaf. Ef mig langar í sólskin, fer ég bara út á svalir og syng þetta lag, þangað til sólin fer að skína !"
Rammgöldrótt stelpan!

Bóndinn hringdi rétt sem snöggvast frá Sacramento, allt í góðu gengi þar.

maí 19, 2004

Jón á afmæli í dag ! 

Í dag á góðvinur minn, Jón Guðmundsson, afmæli. Hann er hvorki meira né minna en hálfrar aldar gamall. Hann er að heiman í dag en er búinn að lofa tónleikum og teiti síðar í tilefni afmælisins. Ég hlakka til !!

Til hamingju með daginn, Jón

maí 18, 2004

Mér er líka boðið í ammæli......  

ligga ligga lá.

Systurdóttir mín, hún Sigurlaug, kom við í eigin persónu í dag, gagngert til að bjóða frænku sinni í afmælið sitt á fimmtudaginn. Hún verður sex ára, og það verður veisla. Ég var að reyna að fiska upp úr henni hvað hana langaði í í afmælisgjöf og eftir smá tos, kom það: Hjólabretti !! Og móðirin sagði - NEI !
Ég hélt að svarið yrði eitthvað svona Barbie, en var ánægð að heyra hvert hugurinn stefnir. Ég reyndi nefnilega hvað ég gat á mínum bernskuárum að hafa gaman af brúðum, eins og stelpur eiga víst að gera. En ég hafði bara aldrei neitt gaman af þeim. Bækur, skautar og reiðhjól voru mínar óskir.
Klisjan um að brúðuleikirnir séu æfing fyrir móðurhlutverkið - ég blæs á það ! Ég hef ekki verið neitt síðri móðir þó ég hafi aldrei þolað brúður. Og nú mega þeir sem vilja og þora mótmæla !


Fjölgun í skóginum ! 

Það bættist einn skógarbúi við í gær þegar nágrönnum mínum - þeim Lárusi og Sigríði - fæddist sonur. Mikið barnalán á þeim bænum !

Kuldakast 

Það kólnaði hressilega í gær, hitinn hékk í 2-3 gráðum, það gránaði í fjöll og reyndar alveg niður undir skóg. Ég verð að bíða með að fara og sækja steinana sem ég fann þarna uppfrá á sunnudaginn. Enda er sennilega rétt að hafa með sér burðarmann - eða að minnsta kosti góðan bakpoka.
Það helltist einhver kvefpest yfir okkur hérna í vinnunni í gær, fyrst byrjaði einn að hnerra, síðan annar og loks fékk ég einhver pirring í nefið. Ég mætti í vinnuna í morgun, þrátt fyrir smá nefrennsli. Sama var ekki hægt að segja um suma aðra.

Björninn minn kemur heim á morgun - það verður nú gaman ! Og svo kemur Eyjastúlkan um mánaðarmótin. Það verður fjör á Fjósakambinum í sumar !

maí 17, 2004

Af bóndanum.... 


er það að frétta að hann getur ekki notað símann sinn í USA, en hringdi áðan úr lánssíma. Var þá staddur á flugvellinum í Boston í heimsins lengstu biðröð (á mælikvarða sveitamannsins) til að komast í San Francisco-flugið. Fegin er ég að hafa ekki farið með - mér finnst svo leiðinlegt að standa í biðröð ! (Lesist: "Þau eru súr," sagði refurinn !)



maí 16, 2004

Helgin að verða búin ! 

Þá er þessi helgi að verða búin. Ótrúlega stuttar þessar helgar. Ég keyrði bóndann á flugvöllinn síðdegis í gær og fór síðan heim að horfa á söngvakeppnina í sjónvarpinu. Var búin að reikna með að vera ein við þá iðju en fékk svo ágætis félagsskap, frumburðinn og frænda hans Mjallhvítarson.
Vaknaði við fuglasöng í morgun og dreif mig á fætur. Veðrið var svo gott. Byrjaði á að hita mér gott kaffi og færa nágrannakonu minni bolla út í garð. Sátum í sólskini og hita með kaffið - það er komið vor - ég fann það í morgun.
Í hádeginu ákvað ég að fara í "hálftímagöngu", en þá stilli ég símann minn á að hringja eftir hálftíma, tek stefnuna eitthvað út í skóg og stoppa ekki fyrr en síminn hringir. Þá á ég eftir að koma mér heim aftur og stundum tekur það lengri tíma. Og í dag var ég næstum tvo tíma á skógarflakki, kom heim með nokkra fallega steina, blaut í fæturna eftir að hafa lent út í Staðaránni, en alveg endurnærð á sál og líkama. Var búin að hugsa mér að skreppa á Norðfjörð, en þar sem skógargangsn tók lengri tíma en til stóð, ákvað ég að fresta þeirri för og fara frekar á sýningu og kaffisölu í Hússtjórnarskólanum. Og sé ekkert eftir því.

Bóndinn er þessa stundina að leggja af stað til Boston og flýgur á morgun áfram til San Francisco og fer þaðan landleiðina til Sacramento.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?