<$BlogRSDURL$>

maí 29, 2004

Þá er kominn laugardagur... 

og blíðan sem kvaldi mig í síðustu viku, þar sem ég sat inni í minni vinnu, er horfin. Komin austanátt, skýjað og frekar kalt.
Synirnir brunuðu af stað til Reykjavíkur í morgun - tilgangur ferðarinnar að fara á tónleika með KORN annað kvöld.
Bóndinn er að vinna, setja upp grind að listaverki út á Eiðum vegna sýningarinnar Fantasy Island. Sýningin er hluti af Listahátíð og verður hér í skóginum og úti á Eiðum í sumar. Forsýning hugmynda verður opnuð á Skriðuklaustri í dag. Þangað ætlum við að fara. Önnur plön eru ekki í gangi um helgina, nema kannski að slaka á heima hjá okkur.
Ég hef verið að fikra mig áfram með forláta linsur á myndavélina sem bóndinn keypti í Amríkunni. Fyrirsæturnar eru margar og ólíkar, s.s. ungar, nýskriðnir úr eggjum, hunangsflugur að næra sig á blátoppsblómum, brum á blágreni og ýmislegt fleira. Erfiðastar voru hunangsflugurnar. Þær gerðu sér enga grein fyrir að þær hefðu átt að sitja kyrrar svo ég næði sæmilegum myndum af þeim. Set kannski inn sýnishorn af þessum tilraunum mínum síðar.

maí 27, 2004

Blessuð blíðan ! 

Það er svo gott veður þessa dagana, að til þess að haldast við innan dyra, þarf verulegan viljastyrk. Illviðri skrifstofumannsins, kallaði einhver það í gær.

Ég fór á tónleika með Jóni "góða" Ólafssyni í gær. Hann er skemmtilegur og syngur með sinni þægilegu "IKEA"-rödd. Ákaflega notalegt.


maí 25, 2004

Ef ég ætti egg .... 

Eitt sinn heyrði ég mann segja:

"Ef ég ætti egg þá fengi ég mér egg og beikon, ef ég ætti beikon"

Mér datt þetta í huga áðan þegar vinnufélagi minn sem er - eins og maður segir - bandsköllóttur, fékk sér svo sterkt kaffi að hárin risu á höfðinu á honum !!


maí 23, 2004

Sunnudagur 

Synir mínir fóru á dansleik í gærkvöldi og ég sat því ein heima. Horfði á sjónvarpið og setti svo "Sleepless in Seattle" í DVD-spilarann og sofnaði. Ótrúlega svæfandi þessi mynd.
Dagurinn í dag fór svo í ýmislegt smálegt. Nágrannakonan kom og heimtaði kaffi, bóndinn hringdi af flugvellinum í San Francisco, er á heimleið - blessaður.
Skrapp í Sólskóga til Kötu og keypti mér tvær rósir í garðinn minn, Þyrnirós frá Kanada og norska Husdalsrós. Gróðursetti þær í beðið fyrir neðan húsið og hlakka til að sjá hvernig þeim reiðir af. Ég setti eina rós þarna í fyrra og hún virðist vera komin vel af stað. Hún heitir May Gold og ber rosalega falleg gul, fyllt blóm, eða gerði það a.m.k. í fyrra.
Og svo fór ég í smágöngu í skóginum. Birkið er að springa út og skógurinn verður orðinn algrænn eftir örfáa daga.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?