<$BlogRSDURL$>

júlí 24, 2004

Tæknin er undursamleg ! 

Fartölvur eru dásamlegar.  Þó ég hafi varla getað hreyft mig í dag er ég samt búin að vinna slatta af myndum og setja upp fyrstu drög að skýrslu/heimasíðu sem sýnir framvinduna á tilraunaverkefninu sem við erum með í gangi, bílastæði lagt lerkikubbum.  Sýnishorn hérna.
Væri gaman að fá að vita hvað ykkur finnst.
Verkinu er reyndar alls ekki lokið og ég mun reyna að bæta við myndum og skýringum á næstunni. 

júlí 23, 2004

Lögst í kör ! 

Komst ekki fram úr rúminu fyrr en í þriðju tilraun í morgun og þá aðeins til að komast að því að ég gat varla staðið heldur.  Bakverkur af þeirri gerðinni sem nær alveg niður í stórutá -
H#"*%*&#x&/%$
Fór og fékk vöðvaslakandi, verkjastillandi lyf og hefði kannski átt að fá eitthvað til að lagfæra geðslagið líka.  Ég hef ekki þolinmæði í svona !!
Eina sem bætir geðslagið aðeins eru bækurnar tvær sem frumburðurinn hafði með sér heim úr borginni - Boris Akunin - hef lesið fyrstu bókina og ætla að leggjast í lestur hinna tveggja - skv. læknisráði.


júlí 21, 2004

Tapsárir gestir ! 

Hingað komu systir mín, mágur, dætur þeirra tvær og bróðurdóttir mín að auki.  Það var skellt í krokketkeppni á lóðinni og er skemmst frá því að segja að ég burstaði gestina, enda á heimavelli.  Þau voru hins vegar svo tapsár að kvittunin í gestabókina hljóðar svo: 
Komum og unnum Tótu í krokkett !! 
Hafið þið vitað annað eins - ég bara spyr ?


Andleysi 

Ég hef ekkert að segja - andlaus og ómöguleg.  Sleppi því bara og held áfram að parkettleggja bílastæðið.


júlí 18, 2004

Orkuleysi 

Á föstudagskvöldið var mér boðið til vinkonu minnar á Egilsstöðum á einhvers konar pottakynningu.  Þar ætlaði karlmaður nokkur að reyna að pranga pottum inn á sveitavarginn með því að elda í svona pottum einhverja dýrindis máltíð úr nánast ekki neinu. 
Þegar við komum á staðinn á tilsettum tíma, reyndist umræddur karlmaður hafa svikist um að mæta.  Í staðinn eldaði Nína þessa líka fínu fiskisúpu og við skemmtum okkur saman 7 konur - örugglega mun betur en með einhvern karl yfir okkur, eldandi í rándýrum pottum, sem aftur hefði orðið til þess að við hefðum annað hvort keypt einhverja potta sem okkur vantar alls ekki neitt eða setið eftir með samviskubit yfir að kaupa þá ekki.
 
Það var rafmagnslaust þegar ég kom á fætur í morgun og var rafmagnslaust í 3 tíma.  Skömmu eftir hádegi fórum við síðan í Eyjólfsstaðaskóg, þar sem verið var að opna nýtt útivistarsvæði.  Þegar við komum heim aftur var rafmagnslaust og kom straumurinn ekki á fyrr en klukkan átta í kvöld.  Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem þetta gerist, og okkar ágæta RARIK, virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessu, þar sem aðeins er um sveitina að ræða.
Reikna með að þeir hefðu kallað út aðeins meiri mannskap ef um þéttbýlið hefði verið að ræða.
 
Svolítið miðaði áfram með bílaplanið í dag - rúmlega hálfnað - næsta skref er að fara og saga svona 5-600 kubba til viðbótar og halda svo áfram að púsla.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?