<$BlogRSDURL$>

ágúst 19, 2004

Loftnet og fótbolti. 

Það hefur sést mjög illa í sjónvarpinu hjá okkur undanfarna mánuði. Ég er búin að nefna þetta nokkrum sinnum bæði við bóndann og synina, en viðbrögðin hafa eiginlega verið svipuð og þegar ég sting upp á að elda eitthvað gott: Þeir eru alveg sammála, en fyrst ég átti hugmyndina, má ég llíka framkvæma hana.
Í gær ákvað ég að gera eitthvað í málinu, fór og keypti loftnet, kapal og tengil. Bóndinn var búinn að vera að príla uppi í fjalli allan daginn og prílaði upp á þak þegar heim kom. Það stóð á endum að hann var búinn að tengja nýja loftnetið þegar fótboltinn var að byrja í sjónvarpinu. Synirnir voru ægilega glaðir þegar þeir sáu hvað sást vel í sjónvarpinu, en ekki eins glaðir þegar við fórum að prófa stefnuna á greiðunni og annað veifið hvarf allt af skjánum. Ég, sem hafði það hlutverk að standa í svaladyrunum og láta bóndann vita hvernig sæist í sjónvarpinu, var beðin að koma þeim skilaboðum til bóndans að "HÆTTA". Hann var hins vegar á því að klára dæmið fyrst hann var kominn þarna upp og gaf sig ekki fyrr en búið var að skora eitt mark.Það er hins vegar alveg deginum ljósara að næst þegar kvartað verður yfir því að illa sjáist í sjónvarpinu og það þurfi kannski að snúa greiðunni, verði sá sem það gerir að fara sjálfur uppá þak !!

ágúst 16, 2004

Hálfrar aldar Haraldur 

Já, Haddi karlinn er orðinn fimmtugur. Hann var búinn að banna okkur að færa sér pakka, aðeins væri leyfilegt að koma með matvæli og drykkjarföng. Með þetta í huga, útvegaði ég mér heimareykt sauðahangiket og íslenskt brennivín, og útbjó malpoka að hætti Stikilsberja-Finns eða bara Andrésar andar.

Það var mikið borðað eins og venjulega þegar þessi fjölskylda hittist. Hangikjötið var spænt upp hrátt, svona í forrétt, lambalærin og svartfuglinn hurfu eins og dögg fyrir sólu og terta, aðalbláber og rjómi settu svo punktinn yfir i-ið.
Danni bróðir skrapp samt inn í eldhús að fá sér lokanart af lambalærinu, bara svona til að klára máltíðina.

Það er ofboðslega mikið af aðalbláberjum í Mjóafirði og víðar á fjörðunum. Krækiber sjást hins vegar varla, að mér skilst.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?