<$BlogRSDURL$>

ágúst 28, 2004

Í dag ... 

Þennan dag fyrir 25 árum vaknaði ég heima hjá foreldrum mínum með óþægilegan verk á tveim stöðum, annars vegar í þumalfingrinum, sem ég hafði næstum höggvið af með hnífi sem ég var að stála fyrir föður minn. Við vorum að gera til hreindýr sem hann hafði skotið. Hinn verkurinn var af öðru tagi, seiðingsverkur í baki, sem kom og fór með sífellt styttra millibili. Það var engin ástæða til að hafa áhyggjur, sagði móðir mín, kona með reynslu. Þetta tæki allt sinn tíma. Ég var samt ekki í rónni fyrr en ég var búin að ná sambandi við bóndann, sem var staddur á Héraðinu. Og ég hafði rétt fyrir mér: Það var styttri tími til stefnu en flestir héldu. Ég þrjóskaðist við að bíða eftir bóndanum áður en ég fór á sjúkrahúsið til að fæða þar frumburðinn okkar, hann Ingvar, sem leit dagsins ljós síðdegis þennan dag.
Hann gerði okkur bóndann að foreldrum og því eigum við 25 ára foreldraafmæli í dag. Foreldrar mínir eignuðust sinn frumburð þennan dag fyrir 51 ári, því elsti bróðir minn er 51 árs í dag.
Til hamingju með daginn Ingvar og Steini.
Það var svo frekar umhent að vera með óvirkan þumalfingur vinstri handar fyrstu vikuna sem ég annaðist ungabarn.

ágúst 27, 2004

Hugleiðingar um vinnu, tækni og veikindi. 

Ég er með brjósklos í baki og er að bíða eftir að komast að hjá sérfræðingi til að fá úrskurð um til hvaða ráða sé hægt að grípa til að ég fá einhverja bót minna meina. Það tekur langan tíma að komast að hjá sérfræðingi og þar sem ég get gengið og legið án mikils sársauka, en get ekki setið nema stutta stund í einu, á ég erfitt með að sinna starfi mínu sem forritari. Til þess að geta eitthvað gert, er ég, með aðstoð vinnufélaga minna, búin að koma upp tengingu að heiman frá mér þar sem ég get komist á vinnusvæðið mitt á netþjónum fyrirtækisins. Það gerir mér kleift að vinna, liggjandi uppi í rúmi heima hjá mér. Þá fara að leita á mann ýmsar spurningar varðandi veikindi af þessu tagi:
Er ég ég ekki nógu mikið veik til að geta bara verið VEIK- PUNKTUR !
Geta fyrirtæki krafist vinnuframlags af fólki með því einu að skaffa þeim aðstöðu til að vinna, í hvernig ástandi sem þeir eru ?
Ekki að það sé verið að krefjast þess að ég sé að vinna heima hjá mér, ég geri bara það sem ég nenni að gera.

ágúst 26, 2004

Þolinmæði 

Ég vildi að það væri hægt að fara í Apótekið og kaupa þolinmæði í pökkum. Ég er nefnilega búin með mína. Í Apótekinu er hægt að kaupa lyf við flestum okkar kvillum og þess vegna væri bara snjallt að selja þar þolinmæði í svona litlum flötum pökkum. "Notist innvortis eftir þörfum" gæti verið áletrunin. Kannski væri rétt að selja þá aðeins gegn lyfseðli og þá kannski 20 % meira þegar maður er að bíða eftir að komast að hjá sérfæðingum innan heilbrigðisgeirans.


ágúst 22, 2004

Íþróttir og amma 

Mjallhvít mágkona mín, varð amma á dögunum og í gær var litla stúlkan skírð í höfuðið á ömmu sinni.
Á Skriðuklaustri var í dag haldið mót í óhefðbundnum íþróttum, pokahlaupi, fjárdrætti, bændaglímu, rófukasti og steinatökum. Bóndinn og frumburðurinn tóku þátt í flestum greinum og stóðu sig bara vel, Erlingur Mjallhvítarson var þeim þó fremri í flestu. Aðferðir voru nokkuð frjálslegar og ég veit ekki hvort það telst löglegt í glímu að halda andstæðingnum á lofti og láta hann dingla fótunum, en það var aðferðin sem bóndinn notaði á nafna sinn, staðarhaldara á Klaustri, í úrslitum bændaglímunnar.
En þetta var gaman, gott veður, létt yfir fólki og allir skemmtu sér á sinn hátt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?