<$BlogRSDURL$>

september 10, 2004

Tuttugu þúsund !! 

Teljarinn minn er að nálgast 20.000 !! Miðað við að heimsóknir séu nálægt hundrað á dag, rúllar hann í þessa tölu á morgun. Endilega leyfið mér að vita hver hittir á þessa tölu. Síðast hét ég þeim heppna "guided tour" um Hallormsstaðaskóg. Hildigunnur fékk töluna þá, mætti austur í sumar og fór í umræddan göngutúr.

Morgunstund, gefur ... 

Ég fékk tölvupóst frá flugfélaginu í gær um 999 kr tilboð á nokkrum sætum á næstunni. Þar kom fram að byrjað yrði að bóka í dag. Þar sem ég þarf suður á fimmtudag, fór ég snemma á fætur og tókst að ná mér í ódýrt flug til Reykjavíkur. Í leiðinni, rétt á meðan ég var að prenta út bókunina, kíkti ég á nokkur blogg og fann nýja sögu frá Carolu tannsmið. Ég kallaði í bóndann sem var að tygja sig í vinnu og las fyrir hann söguna, eða öllu heldur, stundi henni upp milli þess sem ég grét af hlátri. Það hlýtur að vera bráðhollt að byrja daginn í hláturskasti.
Björninn minn kom heim í gærkvöldi og nú tekur alvara lífsins aftur við hjá honum: Skóli og vinna, vakna á morgnana. Best að fara og ýta við honum.

september 08, 2004

Blágreni, ekkert smágreni ! 

Á lóðinni minni, sem er í Hallormsstaðaskógi miðjum, eru nokkur blágrenitré. Þau eru hreinræktaðir Íslendingar, því þau eru ræktuð upp af fræi af elstu blágrenitrjám sem til eru hér í skóginum og gjarnan eru kölluð kóngurinn og drottningin. Þeim trjám var plantað 1905 að mig minnir, en trén sem eru á lóðinni minni gætu verið nálægt 25 ára aldrinum. Þegar við fluttum hingað inn fyrir nákvæmlega 12 árum síðan, voru þetta 2-3 metra ræflar sem varla sáust. Núna er bara árssprotinn á þeim á annan metra á lengd. Þau eru farin að takmarka útsýnið sem ég hef haft á Fljótið. Ég hef verið að velta fyrir mér hvort ég eigi að fjarlægja þau sem næst standa, en svo fór ég að hugsa:
Kannski langar mig ekkert að sjá Fljótið þegar það verður orðið moldarbrúnt á lit og að hálfu leyti ættað af Jökuldal.
Þau verða ekki höggvin alveg strax !

september 06, 2004

Nr. 401 

Þetta blogg er númer 401 !! Tók eftir því áðan að á síðasta bloggi er númerið 400 og ég tók ekki eftir því fyrr en of seint.


september 05, 2004

Veðurblíða 

Það var alveg yndislegt veður í dag, sólskin og hlýtt. Samt ekki eins og á Benidorm þar sem björninn og Eyjastúlkan sleikja sólskinið þessa dagana.
Ég gat ekki á mér setið að fara út í skóg, fékk bóndann með mér og ókum út að Hafursá og þar upp í skóg. Við fórum með það fyrir augum að finna svolítið af hrútaberjum og tókst það fullkomlega. Bóndinn tíndi töluvert af berjum og ég reyndar líka. Fann mér góða brekku þar sem ég gat tínt það sem var fyrir ofan mig. Þegar heim kom sauð ég berin og fékk rúman líter af saft úr þeim. Þegar ég var svo búin að bæta sykri í og sjóða aftur, fékk ég þó nokkrar krukkur af verðandi hlaupi.
Það er stundum sagt að ef hlaupið verður of þunnt, sé það svona hálfgert skokk, nú eða í versta falli labb.
Gef mínu glundri einkunn á morgun, bragðið er a.m.k. í lagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?