<$BlogRSDURL$>

september 18, 2004

Útskrifuð 

Allt gengið vel. Komin í athvarf í Kópavogi, þar til ég fæ grænt ljós á heimferð.

september 15, 2004

Farin suður... 

Farin suður ... þori ekki að bíða til morguns með að fljúga, þar sem spáð er roki og rigningu. Þetta er ekki að verða einleikið ! Ef mér dettur í hug að panta mér flugfar með nokkurra daga fyrirvara og tala nú ekki um ef ég fæ góð kjör á slíkum ferðum, þá gerir vitlaust veður.
Þarf að mæta hjá lækni á morgun og fer í aðgerð á föstudag.
Bið ykkur vel að lifa !

september 13, 2004

Sögur af ættingjum ..... 

Litla systir mín er að hætta sér út á hálan ís núna. Hún er að segja söguna af því þegar frumburður minn var skírður og Danna bróður fannst tilefni til að láta skáldgenið koma í ljós. Hún er nefnilega örverpið sem allir vita allt um. Við eldri systkinin lékum okkur að henni meðan hún var nógu lítil og vitlaus til að líða okkur það. Hún gat t.d. borðað ótrúlega mikið af ís og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir gátum við ekki fundið efri mörkin, ísinn kláraðist alltaf áður en hún var búin að fá nóg.
Sagan endurtekur sig - ég hef grun um að hún og systkinabörn mín hafi gert svipaðar tilraunir á mínum strákum.
Og það merkilega við söguna, sem hún segir á blogginu sínu, er að hún er sönn. Annað sem mér kom á óvart var að frumburðurinn hafði aldrei heyrt þetta áður !

Haust 

Það er að koma haust. Í morgun var Höttur, fjallið sem íþróttafélagið á Egilsstöðum dregur nafn sitt af, hvítur niður í miðjar hlíðar. Skógurinn er að fá á sig haustlitina og það er látlaus drífa af laufblöðum.
Ég fór á föstudaginn að tína mér rifs. Það var fljótgert, eiginlega mokstur frekar en tínsla. Nærri fjórir lítrar af eðalhlaupi liggja eftir tæplega klukkutíma tínslu. Rifs vex villt um allan skóg og það er alltaf hægt að finna runna sem fuglar eða menn hafa ekki náð að hreinsa. Þessi sem ég tíndi af var á bak við viðarskýli skógræktarinnar, á stað þar sem engum dettur í hug að vaxi rifs.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?