<$BlogRSDURL$>

október 23, 2004

Saga af afmælisbarni ! 

Í dag á Gunnar vinur minn 10 ára afmæli !
Hann er búinn að vera tíður gestur hjá okkur síðan hann var pínulítill. Í einni af þessum heimsóknum, fyir kannski 5-6 árum, sátum við á spjalli við eldhúsborðið og hann varð skyndilega annars hugar og svolítið skrýtinn á svipinn. Þá átti eftirfarandi samtal sér stað:

"Er eitthvað að, Gunnar minn" ?

"Nei, ég er bara svo gáfaður"

"Hvað meinarðu, gáfaður" ?

"Já, ég er bara að hugsa svo mikið"
(orðið gáfaður greinilega verið útskýrt á þennan hátt fyrir barninu)

"Og um hvað ertu að hugsa" ?

"Nammið mitt"

"Hvar er það" ?

"Heima, undir rúmi"

"Þínu rúmi" ?

"Nei, pabba og mömmu rúmi, það er miklu stærra"
(augljóslega betri felustaður)

"Hvað ef pabbi þinn fer nú að ryksuga og ryksugar undir rúminu" ?

"Pabbi, hann ryksugar aldrei undir rúmi. "


Til hamingju með daginn og mikið er leiðinlegt að komast ekki afmæliskaffi til þín !

október 19, 2004

Kveðskapur 

Bóndinn sagði á sunnudaginn að hann væri líklega búinn að eiga viðtal við öll blöð landsins um helgina, nema Hús og Híbýli. Einhverjir gárungar voru svo að gantast með það að það vær tilhlökkunarefni að lesa næsta hefti af Bleikt og blátt og sjá hvernig Skúli tæki sig þar út. Þetta leiddi svo til eftirfarandi:

Skúli að vonum ber höfuðið hátt
og helginni í viðtöl sá eyddi,
við Soffíu, Framsókn og Bleikt jafnt sem blátt.
Nú bíðum við til hvers það leiddi.
(Höf: SB)

Annar svaraði svona:
Er ekki bleikt (blandaður) litur samfylkingar og Vinstri grænna (þ.e. félagshyggjuaflanna. Blátt er alla vega litur D-listans !

Leyfi mér því að koma með breytingartillögu !! (Þá er reyndar fyrir bí þetta með öll viðtölin, sem Skúli átti og meira unnið út frá pólitískum áherzlum).


Skúli að vonum ber höfuðið hátt
og hagkvæmur Soffíu gróði.
Í öndvegi sitja því Bleikt hér og Blátt.
en blóta mun Framsókn í hljóði.
(Höf: BHG)


Vesen og aftur vesen ! 

Hallormsstaður á Flótsdalshéraði - þar bý ég. Vona að valið á nafninu hafi verið nægilega afgerandi !

Ég fór í vinnuna um hádegi á dag. Gekk ágætlega úteftir, en erfiðlega að finna stað til að leggja bílnum. Það var ekki byrjað að ryðja götur á Egilsstöðum, hvað þá bílastæði. Tókst með góðra manna hjálp að leggja fyrir utan bæjarskrifstofurnar, en minn vinnustaður er hinum megin við götuna. Komst svo að því að sú hugsun mín að það yrði búið að ryðja þegar ég yrði búin að vinna var mikil ofætlun. Ég skildi þess vegna bílinn eftir og fór heim með birninum og eyjastúlkunni.
Ég er í mesta basli með vinnutölvuna mína, hún birtir bara tóma glugga þar sem javascript eru á bak við, t.d. í kommentum frá Haloscan. Ef einhver kann ráð við þessu er sá hinn sami beðinn að ljósta upp leyndardómnum í kommentin hér fyrir neðan. Það skal tekið fram að ég hef að öllum líkindum klúðrað þessu einhvern veginn, því ég er búin að vera að uppfæra stýrikerfi, office-pakkann, setja upp nýjasta .net-forritunarumhverfið, uppfæra Java Virtual Machine og fleira. Einhvers staðar á leiðinni hef ég yfirskrifað eitthvað, sem veldur þessum skratta. Mér dettur a.m.k. ekki önnur skýring í hug.


október 18, 2004

Óveður ! 

Það er kominn vetur, bylur og ófærð. Ég ákvað að láta allar tilraunir til að fara í vinnuna eiga sig og vera bara heima. Það lítur út fyrir að þetta standi a.m.k. eitthvað fram eftir morgundeginum.
Það er annars eitthvað skrítið að gerast með Haloscan-kommentin. Ég get bara alls ekki opnað þau, hvorki hjá mér eða öðrum. Vonandi er þetta bara tímabundið ástand, ekki tengt þeirri tiltekt sem ég varð að gera í tölvunni minni, sökum plássleysis.

október 17, 2004

Sigur ! 

Úrslit kosninganna í gær eru augljós. Framsóknarflokknum var hafnað af kjósendum. Gott mál.
L-listinn fékk fjóra menn af ellefu, rúm 30 % !

Bóndinn búinn að vera í símanum að blaðra við fjölmiðla í allan morgun. Ætla að ná honum út að labba áður en dimmir.

Skoðanankönnunin um nafnið er óuppgerð. Bíð spennt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?