<$BlogRSDURL$>

nóvember 06, 2004

Áttræður öðlingur 

Á miðvikudaginn var, 3. nóvember, varð Sigurður Blöndal áttræður. Sigurður er skemmtilegur karl með húmorinn í góðu lagi. Hann er maður sem kann að njóta lífsins gæða og eru til ýmsar sögur af honum tengdar því.
Sigurður reykir pípu, en hefur lengi haldið sig við þá reglu að keikja ekki í fyrr en um hádegi. Ég starfaði í nokkur ár hjá Skógrækt ríkisins og var þá stundum sett í að vinna með þeim gamla í ýmsum ritverkum. Það var segin saga að um ellefu-leytið var hann farinn að ókyrrast og um hálf-tólf var hann búinn að taka fram pípuna, troða í hana og totta, tilbúinn að kveikja í. Og á slaginu tólf, hvarf karlinn inn á skrifstofu, þar sem mátti reykja og hvarf í reykjarmökkinn.

Aðra sögu heyrði ég af honum, en sel hana svo sem ekki dýrar en ég keypti. Þá var Sigurður að vinna að blaðaútgáfu, var staddur í prentsmiðju í Fellabænum að lesa próförk og fékk aðstöðu til þess á skrifstofu framkvæmdastjórans. Framkvæmdastjórinn átti í fórum sínum Havana-vindil mikinn, sem hafður var til sýnis í glerhylki uppi á hillu og þótti mikið djásn. Er leið á daginn kom framkvæmdastjórinn inn á skrifstofu sína og gekk þar inn í reykjarkóf mikið. Sat þá gamli með vindilinn, tottandi og sagði: "Ég stóðst ekki freistinguna" !!

Í dag er haldin ráðstefna Sigurði til heiðurs, um hana má lesa á heimasíðu Skógræktar ríkisins, nú eða mæta bara í Íþróttahúsið á Hallormsstað. Það eru víst ennþá örfá sæti laus.

nóvember 02, 2004

Ýmist í ökla eða eyra ! 

Fréttaefnin eru mörg í dag, eldgosið, kosningarnar í Bandaríkjunum, borgarstjórinn orðinn valtur í sessi vegna olíufélagasamráðsins og fleira mætti telja. Fjármálaráðstefna sveitarfélaganaa hefur þess vegna algerlega fallið í skuggann fyrir stórfréttum dagsins. Ég hef hins vegar tekið eftir því að alltaf þegar þessi ráðstefna er haldin, lenda sveitarstjórnarmenn í vandræðum á ferðum sínum. Ég man eftir óveðri, ekki hægt að fljúga, einhverjir fóru keyrandi suðurleiðina og sátu fastir á Kirkjubæjarklaustri vegna sandbyls á Mýrdalssandi.
Þessa stundina eru sveitarstjórnarmenn á leiðinni heim í rútum eða bílaleigubílum því ekki er talið óhætt að fljúga gegnum gosmökkinn. Bóndinn er einn af þessum hópi. Hann hringdi í mig síðdegis og hlakkaði í honum því hann hafði misst af vélinni klukkan fjögur, en síðan frétt að hún hefði lent á Akureyri. Hann var hins vegar ekki eins brattur þegar hann hringdi aftur um 7-leytið, í þann mund að leggja af stað keyrandi frá Reykjavík, því nú er ekki einu sinni hægt að fljúga til Akureyrar.
Ég fór upp í Fjarðarheiði í dag til að fá betra útsýni inn á hálendið. Tók þessa mynd við það tækifæri.

október 31, 2004

Sunnudagsmorgun 

Fyrsta heila vinnuvikan eftir allt þetta veikindavafstur mitt er liðin. Og hvílík vika! Það er allt búið að ganga á. Meirihluta vikunnar leit helst út fyrir að ég yrði að fara að leita mér að nýrri vinnu, en síðdegis á föstudag leystust þessi mál farsællega. Svona gerist þegar fólk sem ekki þekkir rekstur fyrirtækis ætlar að fara að stjórna eftir tölum á blaði en ekki eftir raunverulegum kringumstæðum.

Annars er helgin búin að vera róleg, fór á körfuboltaleik á Egilsstöðum í gær og því miður tapaði Höttur fyrir Þór í Þorlákshöfn - með örfáum stigum, 100 - 95, minnir mig. Það var allt á móti þeim: Fyrirliðinn í leikbanni, lykilmaður í vörninni meiddur og dómararnir afspyrnu lélegir, ekki kannski hlutdrægir, en alls ekki samkvæmir sjálfum sér og það létu menn fara dálítið í skapið á sér.

Við erum að fara á Norðfjörð núna á eftir - í hádegismat hjá mömmu. Meiningin að taka tölvuna hans pabba í yfirhalningu, setja upp íslenska útgáfu af XP og Office svo hann geti betur fellt sig við að nota hana. Veðrið frábært og gott að komast heim til föðurhúsanna, orðið allt of langt síðan síðast.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?