<$BlogRSDURL$>

nóvember 19, 2004

Eineygðir og hættulegir ! 

Nei, ég er ekki að tala um sjóræningja. Ég er að tala um bílana sem ég mæti á leið minni úr og í vinnu, kvölds og morgna. Nú er kominn sá árstími að ég fer að heiman í myrkri og keyri heim aftur í myrkri. Undanfarna daga hef ég verið að mæta eineygðum bílum í stórum stíl, það liggur við að einn af hverjum þremur sé eineygður, bara með lága geislann öðrum megin eða eitthvað slíkt. Sérstaklega eru stóru jepparnir slæmir með þetta. Einum mæti ég oft, sem greinilega er bara með einhvers konar þokuljós, því þegar hann lækkar ljósin, verða bara stöðuljósatýrur eftir.

Ég vil hér með skora á ALLA bíleigendur að fara út, setja bílinn sinn í gang og athuga hvort ljósin á þeim eru í lagi ! Ef eitthvað er í ólagi, lagið það strax.

Og lögreglumenn landsins mættu gjarnan fara af stað í myrkrinu og láta þá vita sem ekki eru að standa sig.


nóvember 18, 2004

Unnur systir er með skemmtilegar sögur úr skólum á blogginu sínu. Í framhaldi af því datt mér þetta í hug:

Þegar bókin "Eldhúsmellur" kom út á sínum tíma, lenti kennari í að útskýra nafnið fyrir nemanda sínum. "Eldhúsmella er kona sem er mikið að elda og vinna í eldhúsi". "ÓKEI", sagði piltur þá, "þá er mamma mín símamella"!
Móðir piltsins vann á símstöð.nóvember 17, 2004

Jólatré og jaxl 

Núna þegar rúmar fimm vikur eru til jóla, eru starfsmenn Skógræktarinnar í óða önn að leita að og fella jólatré handa landsmönnum. Þessa dagana er verið að leita uppi og merkja þau tré sem eiga að prýða götur og torg landsmanna þessi jólin. "Stóru trén", eins og þau eru kölluð. Því þarf að nýta til fullnustu þann stutta tíma dagsins sem er nægilega bjartur til að ganga í skóg og skoða trén. Það er töluvert kalt þessa dagana og því er ekki verið að fella núna. Trén eru miklu stökkari í frosti, nálarnar hrynja af í stórum stíl og greinarnar hrökkva í sundur við minnsta högg.

Ég er heima hjá mér þessa stundina, skrapp til tannlæknis eftir hádegið og hann fann upp á því að taka úr mér endajaxl ! Ég er nefnilega komin svo skammt á þróunarbrautinni að endajaxlarnir mínir komu bara upp (eða niður) eins og aðrar tennur. Þurfti ekkert að skera þá burtu eða neitt svoleiðis vesen. Þeir bara komu af sjálfu sér og gerðu sitt gagn eins og aðrar mínar tennur. Nema þessi, hann hefur alltaf verið hálfgerður ræfill, eins og vanti alla burði í hann, viðkvæmur fyrir hita og kulda og eiginlega ekki til neins gagns. Ég hef hins vegar alltaf varið hann fyrir ágangi tannlækna, sem hafa ámálgað það oftar en einu sinni að það væri réttast að fjarlægja greyið. Ég vil bara hafa mínar tennur og ekkert múður með það.
En áðan varð ég að gefa eftir. Tannlæknirinn minn sagði mér að nú yrði ræfillinn að fara. Hann væri að gefa upp öndina og réttast væri að fara með hann eins og fótbrotinn hest, slá hann af. Og það var gert. Blessuð sé minnig hans!

Þankar dagsins. 

Það er verið að spá því að bylurinn sem var fyrir sunnan í dag, komi til okkar í nótt og í fyrramálið. Sennilega rétt að fara tímanlega af stað í vinnuna á morgun. Þeir geta verið langir þessir 27 kílómetrar ef veðrið og færðin eru leiðinleg.

Var annars að horfa með öðru auganu á "Arf Dostojevskís" í sjónvarpinu. Þar sagði afkomandi skáldsins í beinan karllegg: "Ég var svo latur að herinn fékk áhuga á mér !" Sovéski herinn hefði samviskusamlega kvatt í sínar raðir alla þá sem féllu í skóla vegna heimsku, leti eða ómennsku (eða samblands af öllum þremur). Þessi afkomandi var reyndar sláandi líkur forföður sínum, ef eitthvað er að marka þær höggmyndir og teikningar sem sáust í þættinum.

Pabbi minn er aftur farinn að skrifa dagbókina sína á netið. Ætli hann sé elsti "bloggari" landsins, 77 ára gamall ? Væri gaman að vita ef einhverjir aðrir á hans aldri eru að dunda í þessu líka.

nóvember 14, 2004

Ein svona könnun -  

Take the quiz: "Which American City Are You?"

New York
You're competative, you like to take it straight to the fight. You gotta have it all or die trying.

Sunnudagshugleiðingar 

Fimmtugsafmælið var bara skemmtilegt, fullt af skemmtilegu fólki, góðum mat, góðu rauðvíni og skemmtilegum samræðum um ýmis málefni. Vorum samt komin snemma heim, svona upp úr miðnættinu. Björninn var að vinna á barnum á HH, bæði í fyrrakvöld og í gærkvöldi. Hann kom í gær að leita að rauðri silkislaufu sem hann á. Ég spurði hvað stæði til og þá kom í ljós að í gærkvöldi var víst konukvöld á HH og hann og jafnaldri hans (19 ára) áttu að vera berir að ofan með þverslaufu um hálsinn í vinnunni. Þetta eru auðvitað huggulegir strákar, en einhvern veginn fannst mér þetta frekar óþægileg tilhugsun. Alla vega var ég því fegin að vera ekki á staðnum.
Kannski var þetta bara grín, ég veit það ekki.
Lög á kennaraverkfallið - hvað á maður að segja - lögin eru raunar á báða aðila, sem ekki hafa náð að semja um kaup og kjör kennara og skólastjóra.
Sveitarfélögin eru auðvitað ekki öfundsverð af sínu hlutskipti, að vera næstum eins og millistjórnandi hjá Íslensku olíufélagi. Yfirvaldið skammtar tekjurnar úr hnefa, setur fyrir alls konar verkefni og millistjórnandinn fær skammirnar úr öllum áttum. Aukin verkefni grunnskólanna, eftir að sveitarfélögin tóku við rekstri þeirra, verkefni sem menntamálaráðuneytið kemur yfir á sveitarfélögin, án þess að láta nægilegt ef nokkurt fjármagn fylgja með. Nefna má fjölgun samræmdra prófa, mat á skólastarfi, þróunarstarf og margt fleira. Vinnan lendir á kennurunum, kostnaðurinn á sveitarfélögunum en hvert fer afraksturinn ?

Til ríkisins og stofnana þess !

Kennarar eru kannski fórnarlömb þessara hrókeringa á verkefnum milli ríkis og sveitarfélaga. Auðvitað eiga kennarar að fá mannsæmandi laun sem taka tillit til menntunar, reynslu og ábyrgðar. Þeir verða jafnframt að sitja við sama borð og aðrir hvað varðar starfsöryggi, lífeyrisskuldbindingar, vinnutíma og fleiri slíka þætti. Kannski þarf að stokka spilin alveg upp á nýtt. En á meðan kennarar herja á sveitarfélögin, sem eru múlbundin af vilja ríkisvaldsins um fjáröflunarleiðir, sitja börnin heima yfir PlayStation og myndböndum, án menntunar. Í landinu ríkir fræðsluskylda, sem ríkið ber ábyrgð á. Feli ríkið öðrum (t.d. sveitarfélögunum) að framfylgja þeirri skyldu fyrir sína hönd, hlýtur fjárhagslega ábyrgðin samt sem áður að vera hjá ríkinu. Það er því ríkisstjórn Íslands sem ber skylda til að sjá börnum í landinu fyrir fræðslu. Skattarnir sem við greiðum til ríkisins eru þeir fjármunir sem á að nota í þessu skyni og ef sveitarfélögin í landinu hafa ekki fjármuni til að sinna verkefnunum sem ríkið felur þeim, er það ríkisins að leiðrétta það.

Vonandi verðum við ekki búin að gleyma þessu þegar við kjósum næst til Alþingis !!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?